Home Fréttir Í fréttum ÍAV tapaði hálfum milljarði í fyrra

ÍAV tapaði hálfum milljarði í fyrra

120
0
Sigurður R. Ragnarsson er stjórnarformaður ÍAV. Ljósmynd: Eva Björk Ægisdóttir

„Ástæðan fyrir afkomu ársins er fyrst og fremst sú að á fyrri hluta ársins var velta félagsins undir markmiðum vegna tafa á upphafi nýrra verkefna.“

<>

Íslenskir aðalverktakar, ÍAV, töpuðu 527 milljónum króna árið 2023, samanborið við 80 milljóna hagnað árið 2022 eftir taprekstur árin 2021 og 2020. Afkoma félagsins versnaði því um tæplega 600 milljónir á milli ára.

„Ástæðan fyrir afkomu ársins er fyrst og fremst sú að á fyrri hluta ársins var velta félagsins undir markmiðum vegna tafa á upphafi nýrra verkefna. Á síðari hluta ársins var veltan samkvæmt áætlunum, sem leiddi til þess að viðskiptakröfur og viðskiptaskuldir voru hærri í lok ársins,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi félagsins.

„Verkefni félagsins ganga almennt vel, þó nokkur hafi skilað lakari afkomu en áætlað var. Að öðru leyti gekk rekstur og verkefni félagsins eðlilega fyrir sig og er verkefnastaða félagsins góð og framtíðarhorfur á verktaka markaði á Íslandi góðar. Áætlanir stjórnenda gera ráð fyrir að velta félagsins aukist á árinu 2024.“

Rekstrartekjur ÍAV drógust saman um rúma 2,7 milljarða milli ára, úr 16,5 milljörðum í 13,8 milljarða króna, eða um 16,3%.

Rekstrarafkoma félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) var neikvæð um 195 milljónir í fyrra en var jákvæð um 399 milljónir árið 2022.

„Stjórnendur vinna að því að bæta rekstur félagsins með auknu utanumhaldi verkefna, uppbyggingu innviða og öðrum hagræðingaraðgerðum. Stærstu verkefni félagsins á árinu voru íbúða- og skrifstofubyggingar ásamt vegagerðarverkefnum“

Eignir ÍAV námu ríflega 5 milljörðum króna í árslok 2023 samanborið við 4,1 milljarð í árslok 2022. Aukningin skýrist einkum af því að skuldir við móðurfélagið voru hækkaðar um 841 milljón í fyrra.

Skjáskot af Vb.is

Í skýrslu stjórnar segir að félagið hafi fjárfest í nýjum fastafjármunum í fyrra fyrir 560 milljónir króna. Þessar fjárfestingar hafi verið fjármagnaðar með láni frá móðurfélagi og sölu eldri eigna.

Eigið fé ÍAV nam 843 milljónum króna í lok síðasta árs. Skuldir voru um 4,1 milljarður en þar af voru skuldir við móðurfélagið um 1,4 milljarðar. ÍAV er í eigu svissnesku verktakasamsteypunnar Marti Holding.

Heimild: Vb.is