Home Fréttir Í fréttum Námið lagt niður eftir að sumir nemar höfðu greitt

Námið lagt niður eftir að sumir nemar höfðu greitt

72
0
Háskóli Íslands hyggst leggja niður tæknifræðibraut á verk- og náttúruvísindasviði. Samsett mynd/Sigurður Bogi/Aðsend

Nem­end­ur í tækni­fræði við Há­skóla Íslands eru for­viða yfir ákvörðun skól­ans um að leggja niður náms­braut­ina. Nem­andi seg­ir HÍ lengi hafa van­rækt námið og tel­ur að ákvörðunin hafi verið tek­in fyr­ir nokkru síðan.

<>

„HÍ setti kvöð á um að ef ekki myndu nást 25 skrán­ing­ar í ár yrði deild­in lögð niður,“ seg­ir Gísli Snorri Rún­ars­son tækni­fræðinemi, en klausa þess efn­is var samþykkt á fundi há­skólaráðs 4. apríl.

Tækni­fræði má lýsa sem eins kon­ar hag­nýtri verk­fræði, eða „mechat­ronics“ eins og það kall­ast á ensku, og fell­ur und­ir raf­magns- og tölvu­verk­fræðideild á verk- og nátt­úru­vís­inda­sviði.

Gleymdu að aug­lýsa námið

Gísli seg­ir tækni­fræðina lengi hafa mætt af­gangi inn­an HÍ og því hafi hon­um og öðrum nem­end­um blöskrað enn meira að stjórn skól­ans hafi skyndi­lega lagt deild­ina af án til­rauna til að auka aðsókn í námið. Í raun hafi aðsókn verið frek­ar góð miðað við van­rækslu HÍ að hans mati.

„Það hef­ur ít­rekað gerst að þetta nám bara gleym­ist á kynn­ing­ar­dög­um eða í aug­lýs­ing­um skól­ans um fram­boð á tækni­grein­um við HÍ,“ seg­ir Gísli og bæt­ir við að námið sé það eina inn­an skól­ans sem sé til húsa í Hafnar­f­irði.

„Hann var ekki einu sinni á lista sem átti að hvetja fólk til að sækja STEM-grein­ar skól­ans.“

Hann og aðrir hafi furðað sig á því að tækni­fræði hafi ekki verið aug­lýst sam­hliða öðrum grein­um deild­ar­inn­ar í ljósi þess að til­vist náms­ins lægi þar við.

Nám­inu hafi verið bætt við aug­lýs­inga­efnið eft­ir at­huga­semd­ir frá nem­end­um en á skrán­ing­arsíðunni hafi verið stór og frá­hrind­andi fyr­ir­vari um að ný­nem­ar yrðu ekki tekn­ir inn ef ekki næðist til­skil­inn lág­marks­fjöldi.

Fleiri skráðir en í eðlis­fræði

Kveðst Gísli vita til þess að 16 ný­nem­ar hafi verið bún­ir að greiða skóla­gjöld þann 12. ág­úst en HÍ hafi þá til­kynnt deild­inni að námið yrði lagt niður og sent ný­nem­un­um tölvu­póst um að þeir fengju skóla­gjöld­in end­ur­greidd.

Seg­ir Gísli það stórfurðulegt í ljósi þess að lengi hefði sagt á vefsíðu HÍ að hægt væri að greiða gjöld­in til og með 15. ág­úst.

Nem­end­ur hafi þá óskað eft­ir upp­lýs­ing­um um þá sem ættu eft­ir að greiða skóla­gjöld og spurt hvort ekki væri hægt að hringja í þá aðila og inna þá eft­ir skóla­gjöld­un­um, en lítið hafi verið um svör frá aðalskrif­stof­unni.

Það skjóti skökku við að mati Gísla að deild­in sé lögð niður vegna lakr­ar skrán­ing­ar í ljósi þess að skrán­ing sé betri en í mörg­um öðrum deild­um.

„Það voru t.d. bara átta sem skráðu sig í eðlis­fræði. Þannig að ég held bara að þeir hafi verið bún­ir að ákveða þetta,“ seg­ir Gísli en aðspurður kveðst hann þó engu nær um hvers vegna.

„Þeim var eig­in­lega bara sagt að halda kjafti“

Kveðst hann vita það af sam­töl­um við kenn­ara deild­ar­inn­ar að þeim hafi verið gert ljóst af hálfu HÍ þeir skyldu ekki spyrja of margra spurn­inga eða tjá sig um af­nám deild­ar­inn­ar, en braut­in er sú eina af sinni teg­und á land­inu.

„Þeim var eig­in­lega bara sagt að halda kjafti eins og ég skil þetta.“

Seg­ir Gísli nem­end­ur þó ekki ætla að taka aflagn­ingu náms­ins þegj­andi og hafi þeir stofnað aðgerðahóp sem hafi skrifað bréf til rektors HÍ, mennta- og há­skólaráðs, Stúd­entaráðs, há­skólaráðherra og Verk­fræðinga­fé­lags Íslands.

„HR býður ekki upp á þetta nám þannig þetta er eina tækni­fræðinámið sem er hægt að sækja á Íslandi þannig að ef þetta er lagt niður verður fólk sem hef­ur áhuga á því að leita til út­landa,“ seg­ir Gísli.

Hann bend­ir á að aflagn­ing náms­ins, sem taki þrjú og hálft ár, þýði að nýj­ustu nem­end­ur megi ekki falla í neinu þar sem ekki muni standa til boða að end­ur­taka áfanga, sem sé mikið álag í há­tækni­legu námi.

Afar sorg­legt sé að leggja eigi námið niður enda verði sam­fé­lagið af tækni­menntuðu fólki sem búi að verk­leg­um bak­grunni.

„Ég byrjaði í verk­fræði í HR og það var bara alls ekki fyr­ir mig. Ég hefði hrökklast úr verk­fræði hefði þetta nám ekki verið í boði.“

Heimild: Mbl.is