Home Fréttir Í fréttum Bjartsýn á að opna nýjan Kársnesskóla næsta haust

Bjartsýn á að opna nýjan Kársnesskóla næsta haust

51
0
Ásdís segir ekki ljóst hver heildarkostnaður framkvæmdarinnar verður. Samkvæmt kostnaðaráætlun mun hann kosta um 3,6 milljarða. mbl.is/Hákon Pálsson

Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Kópa­vogs, kveðst bjart­sýn á að taka nýtt hús­næði Kárs­nesskóla til notk­un­ar haustið 2025.

<>

Til stóð að taka hús­næðið í notk­un fyrri hluta árs 2024 og svo um ára­mót­in.

„Ég er bjart­sýn og við telj­um að búið sé að finna alla galla sem þurfti að lag­færa. Þessi vinna við að greina ástand bygg­inga tók marga mánuði en hef­ur gengið vel,“ seg­ir Ásdís.

Heild­ar­kostnaður óljós
Hæga­gang­ur í fram­kvæmd nýs skóla má að mörgu leyti rekja til þess þegar bæj­ar­stjórn Kópa­vogs rifti samn­ingi við verk­taka­fyr­ir­tækið Rizz­ani de Eccher eft­ir að upp komu gall­ar á verki verk­tak­ans.

Ákvörðun um að rifta samn­ingi við verk­taka­fyr­ir­tækið var gagn­rýnd af bæj­ar­full­trú­um inn­an minni­hluta bæj­ar­stjórn­ar Kópa­vogs meðal ann­ars sök­um þess að rift­un­in gæti kallað á skaðabóta­skyldu.

Ásdís seg­ir að beðið sé úr­sk­urðar gerðardóms um hvort rift­un samn­ings­ins hafi verið lög­mæt.

Hún seg­ir ekki ljóst hver heild­ar­kostnaður fram­kvæmd­ar­inn­ar verður en áætlaður kostnaður er 3,6 millj­arðar.

„Það er ekki ljóst hver heild­ar­kostnaður verður. Gerðardóm­ur sker úr hvort rift­un verk­samn­ings sé lög­mæt og tek­ur gerðardóm­ur kröf­ur aðila fyr­ir í fram­haldi,“ seg­ir hún.

Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Kópa­vogs, seg­ir að beðið sé úr­sk­urðar gerðardóms um hvort rift­un samn­ings við verk­taka­fyr­ir­tækið hafi verið lög­mæt. Rift­un­in gæti kallað á skaðabóta­skyldu. mbl.is/​Hall­ur Már

Skyn­sam­legt var að rifta samn­ingi
Spurð hvort að hún telji það hafa verið skyn­sam­legt að á sín­um tíma að rifta samn­ingi við verk­taka­fyr­ir­tækið seg­ir Ásdís að það hafi verið eina kost­inn í stöðunni.

„Húsið lá und­ir skemmd­um, lít­il sem eng­in fram­vinda var á verkstað og verktak­inn stóð ekki í skil­um við und­ir­verk­taka sem voru farn­ir af verkstað. Það kom aldrei til greina að bjóða skóla­börn­um uppá nýtt skóla­hús­næði sem ekki stæðust okk­ar gæðakröf­ur.“

Rúv greindi frá því í vikunni að til hefði staðið að taka húsið til notk­un­ar um árá­mót­in en í ljós kom að ytra byrði út­veggja væri í verra ástandi en haldið var og að það hafi sitt að segja um taf­ir á fram­kvæmd­um.

Ásdís seg­ir nýja hús­næðið koma til með að mæta fjölg­un íbúa á svæðinu. mbl.is/​Há­kon

Nú­ver­andi skóla­hús ann­ar ekki eft­ir­spurn
Fyrr á ár­inu var greint frá því að skipta þyrfti Kárs­nesskóla í tvo sjálf­stæða skóla sem yrðu hvor í sínu hús­inu. Ástæða skipt­ing­ar­inn­ar var sögð vera fjöldi barna á skóla­aldri í hverf­inu.

Ásdís seg­ir nýja hús­næðið koma til með að mæta fjölg­un íbúa á svæðinu. Hún seg­ir að skól­an­um hafi verið skipt upp til þess að tryggja bet­ur fag­legt starf, bæði þegar kem­ur að stjórn­un og rekstri.

„Fyr­ir­sjá­an­legt var að börn­um á svæðinu myndi fjölga og við höf­um séð að ef skól­ar verða of stór þá glat­ast bæði fag­leg og rekstr­ar­leg yf­ir­sýn.“

Heimild: Mbl.is