„Ég held að það sé alveg ljóst að, miðað við þessar tölur, hefði verið mun ódýrara að byggja nýtt hús fyrir leikskólann. Ef það hefði verið vel staðið að því þá hefði það verið mun ódýrara,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um húsnæði leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg sem hefur verið lokað vegna byggingargalla.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Endurbyggingarkostnaður verksins nam 1,46 milljörðum króna og kaupverð hússins nam 826 milljónum króna. Heildarkostnaður verkefnisins var því kominn í tæplega 2,3 ma. kr. í júní sl. Ljóst er að kostnaðurinn mun nú hækka töluvert vegna þeirra endurbóta sem þarf að ráðast í.
Segir Kjartan að þegar ákvörðun hafi verið tekin um að festa kaup á húsinu í nóvember 2020 hafi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins setið hjá og sett fram bókun þar sem bent var á mjög hátt verð sem fylgdi kaupum og framkvæmdum á húsinu miðað við hvað það væri í slæmu ásigkomulagi.
Tilraunastarfsemi á kostnað skattgreiðenda
Úr fundargerð borgarráðs frá 1. júlí 2021 þar sem samþykkt var að borgarráð heimilaði umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við leikskólann sat Sjálfstæðisflokkurinn aftur hjá og lögðu fulltrúar flokksins fram bókun þar sem bent var á að önnur kostnaðaráætlun lægi þá fyrir þar sem kostnaður við endurbætur stefndi í 989 milljónir og heildarkostnaður var þá kominn upp í 1.425 milljónir króna.
„Milljarð þarf í að laga þetta húsnæði sem var keypt fyrir 600 milljónir króna,“ segir í bókuninni.
Segist Kjartan vilja að málið sé rannsakað. „Það hefur verið talað um að vísa málinu til innri endurskoðanda borgarinnar og ég bara vona að það skili einhverjum árangri,“ segir Kjartan og bendir jafnframt á að fleiri byggingarverkefni séu á teikniborðinu hjá borginni sem gætu orðið mjög dýr.
Nefnir borgarfulltrúinn Miðborgarleikskólann við Njálsgötu, endurbyggingu Grófarhússins, skólabrú á Fleyvangi í Vogabyggð og Fossvogsbrúna sem dæmi. „Þetta eru allt verkefni sem verða fokdýr og mér sýnist að kostnaðaraðhald sé mjög lítið,“ segir Kjartan.
Segir hann þá enn fremur að svo virðist vera sem áhersla í byggingarmálum sé á hönnun og tilraunastarfsemi en ekki notagildi og hagkvæmni.
„Þetta er ekkert annað en tilraunastarfsemi á kostnað skattgreiðenda,“ segir borgarfulltrúinn að lokum.
Heimild: Mbl.is