Home Fréttir Í fréttum Vinna hafin við nýjan snjóflóðavarnargarð í Neskaupstað

Vinna hafin við nýjan snjóflóðavarnargarð í Neskaupstað

29
0
Horft yfir Neskaupstað frá sjó eftir snjóflóðin á síðasta ári. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Vinna er hafin við nýjan snjóflóðavarnargarð í Neskaupstað. Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar vonast til að framkvæmdin gangi sem hraðast enda hefði varnargarður á þessum stað skipt sköpum í snjóflóði í fyrra.

<>

Undirbúningsvinna er hafin við framkvæmd fjórða snjóflóðavarnargarðsins við Neskaupstað. Garðurinn rís ofan við austasta hluta bæjarins þar sem fjögur íbúðarhús urðu fyrir snjóflóði í lok mars í fyrra.

Þeir snjóflóðavarnargarðar og keilur sem fyrir voru sönnuðu mikilvægi sitt í snjóflóðunum. Ljóst var þó að flýta þyrfti byggingu fjórða garðsins, austast í bænum.

Undirbúningur fyrir framkvæmdina er hafinn. Reistur verður 730 metra langur þvergarður ofan við efstu hús í Mýra- og Bakkahverfi og tvær keiluraðir af samtals tuttugu keilum sem eiga að draga úr flóðhraða.

Hefði skipt sköpum í snjóflóðunum í fyrra
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, segir íbúa ánægða með að vinna sé hafin. „Við fundum það svo sannarlega í snjóflóðunum í fyrra hversu gríðarlegu máli garðarnir skipta okkur. Á því svæði sem þessi garður verður, hann hefði skipt sköpum líka,“ segir Jón Björn.

„Við erum bara mjög ánægð með að það sé verið að hefjast handa og vonandi gengur þetta bara sem best og hraðast.“

Áætluð verklok eru í árslok 2029. Jón segir það langan tíma en þá sé meðtalinn allur frágangur sem lengi framkvæmdatímann.

„Vonandi verður garðurinn sjálfur og keilurnar, sem öllu máli skipta í vörnunum, komið sem fyrst af stað. Það sinni hlutverki sínu þó verið sé að vinna að garðinum í heild sinni,“ segir Jón Björn.

Heimild: Ruv.is