Home Fréttir Í fréttum Ráku pabba sinn eftir átök í smíðafyrirtæki

Ráku pabba sinn eftir átök í smíðafyrirtæki

170
0
Smiður að störfum. RÚV

Allt fór í háaloft í rótgrónu smíðafyrirtæki þegar einn eigendanna sneri aftur úr veikindaleyfi og rak gjaldkerann.

<>

Héraðsdómur Reykjaness kvað í dag upp dóm í máli manns gegn eigin fyrirtæki sem hann á með sonum sínum. Þeir stofnuðu fyrirtækið í sameiningu um aldamót en undir lok árs 2021 kom til harðra átaka um yfirráðin.

Faðirinn átti í upphafi 40% hlut í fyrirtækinu á móti sonunum sem áttu hvor um sig 30%. Eftir að eiginkona föðurins féll frá breyttust eignahlutföllin þannig að hlutur hans minnkaði í 26,7% og annar sonurinn varð stærsti hluthafinn með 43,3%.

Faðirinn var skráður framkvæmdastjóri allt þar til hann slasaðist í janúar 2021 og varð óvinnufær um nokkurra mánaða skeið. Hann var á launaskrá út júlí þegar veikindaréttur hans kláraðist.

Héraðsdómur Reykjaness.
RÚV – Eggert Þór Jónsson

Átök við endurkomu
Maðurinn mætti svo aftur til starfa snemma í október sama ár og þá gerðust hlutirnir hratt. Hann rak samdægurs konu sem vann sem gjaldkeri og bókari með ásökunum um gróf og ítrekuð brot í starfi. Sú kona var ekki aðeins starfsmaður fyrirtækisins heldur eiginkona sonarins sem var orðinn stærsti hluthafinn í fyrirtækinu.

Framkvæmdastjórinn sem snúið hafði aftur sakaði konuna um brot á hlýðniskyldu, greiðslu ósamþykktra reikninga, fjárdrátt og undanskot á eignum félagsins til að byggja sér hús. Hann óskaði þess við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að rannsóknarmenn yrðu skipaðir en því vísaði ráðuneytið á bug og sagði hann ekki hafa fært nægilega sterk rök fyrir ásökunum sínum.

Barist um völdin í fyrirtækinu
Synirnir tóku endurkomu föðurins síður en svo fagnandi og reyndu að knýja fram hluthafafund. Það tókst að lokum milli jóla og nýárs og náðu bræðurnir þá völdum yfir fyrirtækinu í takt við hlutafjáreign sína.

Í millitíðinni hafði faðir þeirra leyft tveimur starfsmönnum að hætta fyrirvaralaust, þeirra á meðal starfsmanni sem hóf þegar störf hjá yngsta syni framkvæmdastjórans sem var í samkeppni við það gamla.

Að auki lét hann fyrirtækið greiða kostnað vegna starfa lögmanns. Sá gætti hagsmuna föðurins í viðræðum um hugsanleg kaup sonanna á hans hlut, rak erindi mannsins þegar hann vildi fá nálgunarbann á annan sona sinna og sendi erindi til skattayfirvalda um hugsanleg undanskot.

Tölva á nafni fyrirtækis þriðja sonarins
Þessu til viðbótar lét hann fyrirtækið greiða fyrir tæki og tölvu sem synirnir sögðu að hefðu aldrei skilað sér til fyrirtækisins.

Tölvuna, sem faðirinn lét gamla fyrirtækið borga, lét hann skrá á fyrirtæki yngsta sonarins. Þar að auki lét hann borga fyrir bókhaldsþjónustu vegna deilna sinna við aðra hluthafa.

Einnig kom öðrum eigendum á óvart að maðurinn skyldi láta fyrirtækið borga sjúkrareikninga sína og innkaup í matvöruverslun.

Faðirinn krafðist þess að fá greiddan arð upp á 27 milljónir króna, að frádregnum 3,7 milljónum sem hann hafði þegar fengið greiddar, og tæpar sex milljónir í vangoldin laun.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að hann ætti rétt á arðgreiðslunni en ekki laununum þar sem synirnir hefðu verið í fullum rétti til að reka hann.

Frá arðgreiðslunni dragast hins vegar ýmis útgjöld sem hann hafði látið fyrirtækið greiða, svo hann fær 7,4 milljónir króna.

Leiðrétt hefur verið að annar þeirra sem hætti var ekki yngsti sonur mannsins heldur maður sem réði sig í vinnu hjá honum.

Heimild: Ruv.is