Home Fréttir Í fréttum Telja að ekki þurfi að fella fleiri en 40 tré í Öskjuhlíð

Telja að ekki þurfi að fella fleiri en 40 tré í Öskjuhlíð

44
0
Að mati sérfræðinga borgarinnar þyrfti einungis að fella rétt um 40 tré í Öskjuhlíð á þessu ári til að uppfylla sett skilyrði. RÚV – Ragnar Visage

Sérfræðingar á vegum Reykjavíkurborgar eru ósammála mati Isavia um að fella þurfi 2.900 tré í Öskjuhlíð til að bæta flugöryggi. Samgöngustofa hefur sett Isavia og Reykjavíkurborg frest.

<>

Isavia og Reykjavíkurborg eru ósammála um hversu mörg tré þurfi að fella í Öskjuhlíð til að bæta flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli. Samgöngustofa hefur gefið Isavia frest til 2. september til að lækka trjágróður.

Síðasta sumar krafðist Isavia þess að Reykjavík myndi fella 2.900 tré í Öskjuhlíð. Ástæðan fyrir því var að trén, sem eru með þeim elstu og hæstu á svæðinu, voru farin að ógna flugöryggi við Reykjavíkurflugvöll.

Hæð trjánna er byrjuð að hafa áhrif á að- og brottflug á Reykavíkurflugvelli. Vegna hæðar þeirra hefur blindflug yfir Öskjuhlíð að vellinum verið bannað og aðeins sjónflug leyft til lendingar.

Í bréfi sem Samgöngustofa sendi Reykjavíkurborg í lok maí segir að Samgöngustofa hafi veitt Isavia innanlandsflugvöllum frest til 2. september til þess að lækka trjágróður í Öskjuhlíð niður fyrir hindranafleti í að- og brottflugsferlum. Nái Isavia og Reykjavíkurborg ekki saman um lækkun trjágróðursins muni Samgöngustofa fara í aðgerðir til að fjarlægja trén, á kostnað Reykjavíkurborgar.

Telja að ekki þurfi að fella meira en 40 tré

Í skriflegu svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu segir að borgin telji að þær mælingar sem Isavia lét gera 2022 gefi ekki tilefni til að fella um þrjú þúsund tré í Öskjuhlíð.

Að mati sérfræðinga borgarinnar þyrfti einungis að fella rétt um 40 tré á þessu ári til að uppfylla sett skilyrði. Samgöngustofa hafi ekki lagt sjálfstætt mat á málið, heldur aðeins vísað í kröfu og mat Isavia. Því fer Reykjavíkurborg fram á að Samgöngustofa taki málið til sjálfstæðrar skoðunar.

Næsti fundur Reykjavíkurborgar við Isavia og Samgöngustofu verður eftir sumarleyfi.

Óeðlilegt að bréfið hafi ekki verið kynnt borgarfulltrúum

Bréf Samgöngustofu til Reykjavíkurborgar var ekki kynnt borgarfulltrúum eða fulltrúum í umhverfis- og skipulagsráði. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé óeðlilegt.

„Frá því bréfið er sent í lok maí hafa verið tíu fundir í annars vegar skipulagsnefnd og í borgarráði og mér hefði fundist eðlilegt að okkur hefði verið,“ segir Hildur.

Í skriflegu svari Reykjavíkurborgar segir að bréfið „var hvorki stílað á borgarráð né umhverfis- og skipulagsráð heldur Reykjavíkurborg og var því framsent á þá embættismenn sem annast hafa samskipti við Isavia og Samgöngustofu.“

Þá segir að viðkomandi ráðum verði gerð grein fyrir niðurstöðu samtals Reykjavíkurborgar, Isavia og Samgöngustofu þegar hún liggur fyrir.

Heimild:Ruv.is