Home Fréttir Í fréttum „Al­var­lega vanfjármögnuð“ í við­haldinu

„Al­var­lega vanfjármögnuð“ í við­haldinu

57
0
Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar. VÍSIR/SIGURJÓN

Forstjóri Vegagerðarinnar segir stofnunina alvarlega vanfjármagnaða þegar það kemur að viðhaldi vega. Ósamþykkt samgönguáætlun setur sömuleiðis strik í reikninginn.

<>

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar var til viðtals á Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Hvorki samgönguáætlun né samgöngusáttmáli náði í gegnum þingið fyrir sumarfrí. Ljóst er að tafir verða á ýmsum vegaframkvæmdum, enda varðar áætlunin fjárfestingu fyrir rúma 900 milljarða til næstu 15 ára.

Í samgönguáætlun eiga veggjöld að dekka um 40 prósent af kostnaði við uppbyggingu jarðgangnaframkvæmdir. Gjöldin eru hins vegar ósamþykkt og óútfærð. Bergþóra segir ekki farið af stað með þær framkvæmdir áður en fjármögnun liggur fyrir.

„Við erum á þeim stað að við erum í ákveðinni lægð varðandi framkvæmdamagn, þó það séu mikil áform. Það er verið að undirbúa framkvæmdir fyrir mikla peninga, bæði á höfuðborgarsvæðinu og eins á landsbyggðinni,“ segir Bergþóra.

Mikilvægt sé að fjármunir af veggjöldum fari í samgönguuppbyggingu, nokkuð sem Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi telur að ekki hafi verið reyndin með bensíngjaldið.

„Við erum með samgöngukerfi sem er gríðarlega stórt og mjög stórt sem hlutfall skattgreiðenda, per kílómeter. Mun stærra en við sjáum í nokkru okkar nágrannalandi og það er engin launung á því að það vantar aukið fé inn í samgöngukerfið.“

Stöðug og jöfn fjárfesting sé því nauðsynleg. Fjallað hefur verið um að viðhaldsskuld í vegakerfinu sé orðin mikil og aukist með hverju ári, hún standi í 130 milljörðum í dag.

„Þar erum við alvarlega vanfjármögnuð. Við sjáum það. Við getum horft á það þannig að þetta Grettistak, sem 21. öldin var í uppbyggingu samgönguinnviða er að koma svolítið á tíma.“

Heimild: Visir.is