Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustungan að Baugi Bjólfs

Fyrsta skóflustungan að Baugi Bjólfs

92
0
Frá athöfninni í gær. Frá vinstri: Vilhjálmur Konráðsson verkstjóri frá Héraðsverki, Magnús Baldur Kristjánsson framkvæmdastjóri MVA, Hugrún Hjálmarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Múlaþings og Guðmundur Magni Bjarnason frá Verkfræðistofunni Eflu. Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, situr í gröfunni. Mynd: Múlaþing/Heiða Ingimarsdóttir.

Fyrsta skóflustungan að Baugi Bjólfs, útsýnispalli yfir Seyðisfjörð í hlíðum fjallsins Bjólfs, var ekin í gær. Vonast er til að hægt verði að ljúka steypuvinnu þar í haust þrátt fyrir að kuldatíð hafi þegar seinkað vinnu á staðnum um allt að mánuð.

<>

Tuttugu ár eru síðan komið var upp frumstæðari útsýnispöllum í Bjólfi og gerður vegur að þeim í tengslum við uppbyggingu snjóflóðamannvarna. Síðan hafa þróast hugmyndir um frekari framkvæmdir vegna vinsælda staðarins.

Þær fengu aukinn byr þegar skipulag og hönnun svæðisins var boðin út í gegnum hugmyndasamkeppni. Vinningstillagan kallast „Baugur Bjólfs“ og er hringlaga útsýnispallur. Hönnunin hefur vakið athygli og fengið umfjöllum í arkitektamiðlum víða um heim.

Verkefnið fékk síðan hæsta styrkinn, tæpar 160 milljónir, við úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í fyrra. Stóð til að ráðast í verkið þá en það dróst þar sem sveitarfélagið Múlaþing stóð í fleiri verkefnum.

Fyrsta skóflustungan er nú að baki, þótt hún hafi verið síðar en vonast var. Bjartsýnustu áætlanir gerðu ráð fyrir að hægt yrði að hefja framkvæmdir fyrir um mánuði en snjór var loks ruddur af veginum síðasta sunnudag.

Steypumótin forsmíðuð
Það þýðir þó ekki að vinnan sé ekki hafin. MVA er aðalverktaki og hjá því hefur verið unnið að undirbúningi síðustu tvo mánuði. „Við erum búin að forbinda efni og smíða mót. Þeim þarf þá bara að raða saman á staðnum og síðan steypa,“ segir Magnús Baldur Kristjánsson, framkvæmdastjóri MVA.

Mótin eru í einingum sem fluttar verða á staðinn þegar jarðvinnu er lokið og búið að koma upp undirstöðum fyrir bæði pallinn og steypumótin. Hringnum er skipt í 10° búta þannig að mótin verða alls 36 að tölu.

Vonast er til að hægt verði að klára alla steypuvinnu í haust þannig steypan verði spennt í september. Hversu mikið af öðrum frágangi, svo sem uppsetningu handriða, næst að klára ræðst af tíðarfarinu en verklok samkvæmt samningi eiga að vera í október 2025.

Magnús Baldur segir verkefnið „óhefðbundið“ en spennandi. Aðstæður séu um margt krefjandi því athafnasvæðið sé þröngt. Jarðvegurinn séu björg en ekki venjulegt malarefni. Þá eru gerðar kröfur um að umhverfið pallsins eftir framkvæmdir verði sem líkast því sem það er nú. Þess vegna er búið að taka loftmyndir af svæðinu og merkja steina sem eru færðir til.

Mikil eftirvænting fyrir útsýnispallinum
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, hefur trú á að útsýnispallurinn eigi eftir að vekja mikla lukku. „Þetta verður stórglæsilegt mannvirki og frábær viðbót við áfangastaðaflóruna á bæði Seyðisfirði og Austurlandi.

Það hefur verið mikill áhugi á framkvæmdinni enda er þetta einstakur útsýnisstaður. Það verður bílastæði við hann en einnig er getur staðurinn orðið vinsæll meðal útivistarfólks sem gengur neðan úr Seyðisfirði. Að hann sé aðeins aðgengilegur hluta úr árinu gerir hann bæði afskekktan og eftirsóknarverðan.“

Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 190 milljónir, en Múlaþing leggur til 30 milljónir á móti styrknum. Jónína segir hann hafa verið algjört lykilatriði til að gera útsýnispallinn að veruleika. Hún telur ekki að verðhækkanir og töf um ár eigi ekki að hafa áhrif á fjárhagsáætlun verksins, því vinna hafi verið lögð í það með arkitektum, samhliða útboðinu í vor, að laga mannvirkið að fjárheimildum. Það hafi tekist vel.

Vegurinn út að útsýnispallinum verður lagaður fyrir flutningana í vor. Jónína segir ástand hans gott en ljóst sé að endurbæta þurfi hann, meðal annars með útskotum.

Heimild: Austurfrett.is