Home Fréttir Í fréttum Vinna við varnargarða hefur kostað 5,5 milljarðar hingað til

Vinna við varnargarða hefur kostað 5,5 milljarðar hingað til

68
0
Nauðsynlegt reyndist að hækka varnargarðana við Svartsengi eftir að hraun flæddi þar yfir í júní. RÚV – Ragnar Visage

Útlagður kostnaður við gerð varnargarðanna við Grindavík og Svartsengi er um 5,5 milljarðar. Þetta kemur fram í svörum frá Innviðaráðuneytinu. Hækkun garða við Svartsengi þar sem hraun flæddi yfir er langt komin að sögn sviðsstjóra Verkís.

<>

Útlagður kostnaður við gerð varnargarðanna og önnur verkefni tengd þeim við Grindavík og Svartsengi er um 5,5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í svörum frá Innviðaráðuneytinu við fyrirspurnum fréttastofu.

Samtals hafa fjárheimildir upp á 7,2 milljarða króna verið samþykktar vegna varnargarðanna. Fyrst 2,7 milljarðar króna í fjáraukalögum ársins 2023 og svo 4,5 milljarðar króna í fjórum fjáraukalögum ársins 2024.

Samkvæmt greinargerð fjáraukalaga 2024 er áætlaður heildarkostnaður vegna varnargarðanna 6,6 til 7,3 milljarðar króna.

Bent er á að vinna við varnargarðana sé í stöðugri endurskoðun og því ekki um endanlega áætlun að ræða.

Áætlanir breyttust þegar hraun flæddi yfir
Upphaflega var gert ráð fyrir að vinnu við varnargarðana myndi ljúka í júní eða byrjun júlí. Nauðsynlegt reyndist að hækka þá eftir að hraun flæddi meðfram og yfir garð L1 við Svartsengi.

Enn er unnið að því að hækka þann garð og er sú vinna langt komin að sögn Ara Guðmundssonar, sviðsstjóra hjá Verkís.

Ari Guðmundsson, sviðsstjóri og byggingaverkfræðingur hjá Verkís.
RÚV / Benedikt Sigurðsson

„Það er líka verið að vinna að því að skoða hvar aðrir veikleikar gætu verið út frá ýmsum sviðsmyndum,“ segir hann og tekur fram að unnið sé að því að dýpka rennur fyrir ofan varnargarð L6 fyrir ofan Svartsengi. Verið sé að forgangsraða vinnu við hækkun miðað við hvar líklegt sé að næsta gos komi upp.

„Það hefur verið mjög mikil samleið milli þess hraunflæðis sem við höfum séð og þeirrar líkangerðar sem lá til grundvallar þegar hönnun garðanna fór fram,“ segir hann.

Ari segir að heilt yfir hafi bygging varnargarðanna gengið mjög vel og gott samstarf hafi verið við þá verktaka sem komið hafi að verkinu. „Þessir varnargarðar hafa sinnt sínu hlutverki eins og til var ætlast,“ segir hann.

Í svörum Innviðaráðuneytisins segir að enn eigi eftir að ljúka við gerð varnargarða og vega þeim tengdum við bæði Grindavík og Svartsengi.

Verið sé að vinna í vegtengingum en búið sé að byggja nýja vegi með fyllingu og þunnu malarslitlagi á Nesvegi, Grindavíkurvegi ofan Grindavíkur og Norðurljósavegi (Bláalónsvegi). Við Svartsengi sé verið að vinna í Grindavíkurvegi norðan Svartsengis og Bláalónsvegi utan varnargarða. Þessir vegir séu ekki fullbúnir þar sem það vanti burðarlög og bundið slitlag. Ekki sé ljóst hversu langan tíma vegagerðir muni taka en það sé ljóst hversu langan tíma vegagerðir muni taka en það ráðist af hitastigi hrauns undir vegum og yfirborðshita.

Sundurliðun kostnaðar
Í svörum Innviðaráðuneytisins segir að erfitt sé að segja til um hvernig fjármunir komi til með að dreifast á verktaka. Ekki sé unnið eftir fyrir fram skilgreindri skiptingu heldur vinni verktakar að mestu sem heild.

Skipting ráðist meðal annars af því hversu aðkallandi vinna við garðana sé hverju sinni eða hvort breytinga sé þörf vegna atburða. Þá henti sum tæki betur í verkefni en önnur og einnig geti skipting farið eftir því hvaða tæki eru tiltæk.

Beðið var um sundurliðun kostnaðar eftir verkefnum og verktökum og veitti Vegagerðin ráðuneytinu upplýsingar um kostnað og sundurliðun hans.

Heimild: Ruv.is

Sjá má upplýsingar um nánari sundurliðun kostnaðar hér fyrir neðan.

Skjáskot af Ruv.is
Skjáskot af Ruv.is
Skjáskot af Ruv.is
Skjáskot af Ruv.is
Skjáskot af Ruv.is