Home Fréttir Í fréttum Fjöldi íbúða í byggingu helst stöðugur

Fjöldi íbúða í byggingu helst stöðugur

36
0
Mynd: HMS.is

Alls eru 7.026 íbúðir í byggingu um land allt og hefur fjöldi þeirra haldist stöðugur á síðustu mánuðum.

<>

Tæplega 60 prósent íbúðanna eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og um fjórðungur í sveitarfélögum í nágrenni þess. Þetta kemur fram á mælaborði íbúða í byggingu, sem finna má á heimasíðu HMS.

Mælaborðið birtir samantekin gögn og talningar fyrir íbúðarhúsnæði úr Mannvirkjaskrá HMS. Mannvirkjaskrá nýtir meðal annars gögn úr fasteignaskrá ásamt gögnum sem sveitarfélög landsins afhenda til HMS.

Meiri áhersla á fjöl­býli

Um 77 prósent af íbúðum í byggingu á landinu eru í fjölbýlum en hlutfall fullbúinna íbúða sem eru í fjölbýlum er 62 prósent. Það má því segja að meiri áhersla sé nú á byggingu fjölbýla heldur en sérbýla og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem um 92 prósent íbúða í byggingu er í fjölbýlum.

Full­bún­um íbúð­um fjölg­ar mest í Reykja­vík

Alls hafa 1.709 íbúðir orðið fullbúnar það sem af er ári og þar af 1.662 nýjar íbúðir, en íbúð telst fullbúin ef hún hefur fengið lokaúttekt eða er tekin í notkun.

Fullbúnum íbúðum fjölgar mest í Reykjavík þar sem slíkar íbúðir telja 489 það sem af er ári. Utan höfuðborgarsvæðisins hafa flestar íbúðir orðið fullbúnar í Reykjanesbæ á árinu eða 125 talsins.

Heimild: HMS.is