Framkvæmdum við Arnarnesveg, milli Breiðholtsbrautar og Rjúpnavegar, miðar vel. Unnið er að nýrri aksturs- og göngubrú yfir Breiðholtsbraut, nýjum undirgöngum undir Breiðholtsbraut til móts við Völvufell, vegagerð og göngu- og hjólastígum í Elliðaárdal, auk fleiri verkefna.
Um 10 mánuðir eru síðan framkvæmdir við Arnarnesveg hófust, eða í byrjun september 2023. Fyrstu verkþættir fólust í undirbúningi fyrir breikkun Breiðholtsbrautar og jarðvinna í kringum brúarstæði Arnarnesvegar fyrir þverum Breiðholtsbrautar. Framkvæmdum hefur miðað vel og eru samkvæmt áætlun.

Unnið hefur verið að bergskeringum vegna breikkunar Breiðholtsbrautar, ásamt fyllingum og útlögn styrktarlags og lagningu afvötnunarkerfis. Vinna við uppsteypu á undirstöðum fyrir aksturs- og göngubrú yfir Breiðholtsbraut stendur nú yfir, sem og jarðvinna og framleiðsla steyptra eininga fyrir ný undirgöng undir Breiðholtsbraut á móts við Völvufell. Búið er að grafa fyrir göngunum að mestu.
Á Arnarnesvegi hefur verið unnið við bergskeringar og fyllingar næst brúarstæði yfir Breiðholtsbraut og jarðvegsskipti fyrir göngu- og hjólastíga í Elliðaárdal.
Steyptar hafa verið undirstöður og stöplar fyrir nýja göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár við Dimmu og unnið að stígatengingum. Búið er að leggja bráðabirgðastíg í Elliðaárdal með malbikuðu yfirborði og góðri lýsingu. Hlé verður gert á þessum framkvæmdum við Elliðaár þangað til í október vegna laxveiðitímabils.
Við Breiðholtsbraut hefur einnig verið unnið við lagningu nýrrar 800 mm hitaveitulagnar Suðuræð II en þær framkvæmdir eru á vegum Veitna.

Jarðefnum sem falla til vegna framkvæmdanna og ekki nýtast til vegagerðar hefur verið ekið í Vetrargarð Reykjavíkurborgar sem er í uppbyggingu þar sem skíðabrekkan er við Jafnasel.
Á næstu vikum verður unnið áfram við framkvæmdir á Breiðholtsbraut og Arnarnesvegi. Gera má ráð fyrir einhverjum truflunum vegna þessarar vinnu á næstunni og meðal annars eru bergskeringar með sprengingum að hefjast að nýju á Arnarnesvegi sunnan Útvarpsstöðvarvegar en hlé hefur verið á á þeirri vinnu síðustu mánuði.
Áætluð verklok eru haustið 2026.
Heimild: Vegagerdin