Home Fréttir Í fréttum Milljónakostnaður fellur á borgina vegna viðgerða á gufubaði

Milljónakostnaður fellur á borgina vegna viðgerða á gufubaði

110
0
Útisvæði Sundhallarinnar í Reykjavík opnaði 2017. RÚV – Menningin

Gufubaðið í Sundhöll Reykjavíkur hefur verið lokað vegna viðgerða síðan í janúar. Framkvæmdirnar eru gerðar vegna galla í fyrri uppsetningu. Gufubaðið var fyrst tekið í notkun 2017.

<>

Reiknað er með að kostnaður við viðgerðir á gufubaði Sundhallarinnar í Reykjavík verði á bilinu 20 til 25 milljónir króna.

Sá kostnaður greiðist allur af Reykjavíkurborg, „enda er hún eini eigandi Sundhallar Reykjavíkur,“ líkt og segir í svari borgarinnar við fyrirspurn fréttastofu. Inni í þessari tölu er kostnaður við hönnun, uppsetningu, kaup á búnaði og tengingu við tæknikerfi.

Gufubaðið hefur verið lokað frá því í lok janúar og stefnt er að því að opna það aftur í ágúst.

Galli í fyrri framkvæmdum ástæða viðgerðarinnar
Gufubaðið var fyrst tekið í notkun þegar útisvæði laugarinnar opnaði í lok árs 2017. Bygging gufubaðsins var þó greinilega ekki eins og best verður á kosið, líkt og Snorri Örn Arnaldsson forstöðumaður Sundhallarinnar sagði í samtali við fréttastofu.

„Það var einhver galli í fyrri framkvæmdum eða fyrri uppsetningu á gufubaðinu sem þurfti að leiðrétta. Það þurfti að hreinsa allt út og setja upp alveg nýtt gufubað. Það tók tíma, því miður, að ganga frá öllum samningum og fá nauðsynlegt efni til landsins,“ segir Snorri.

Spurður að því hvenær stefnt sé að opnun gufubaðsins segir Snorri að ekki sé búið að setja fasta dagsetningu á það. Stefnt sé að því að opna í fyrri hluta ágúst. „Við viljum frekar að þetta sé vandað en að við flýtum okkur um of,“ segir hann. Opnun verði auglýst vel þegar þar að kemur.

Flísar hrundu úr lofti gufubaðsins 2018
Það hefur teygst úr framkvæmdunum. Samkvæmt verkáætlun áttu framkvæmdir að taka tíu til ellefu vikur. Þær áttu að hefast í um miðjan apríl, og ljúka í fyrri hluta júní.

Að sögn Snorra var gufubaðinu lokað í janúar vegna umrædds galla.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gufubaðinu er lokað vegna viðgerða. Fáum mánuðum eftir að það var tekið í notkun hrundu mósaíkflísar úr lofti gufubaðsins.

Þá vildi svo heppilega til að árvökull gestur sá í hvað stefndi og skipaði öllum að fara út. Nokkrum sekúndum síðar komu flísarnar niður úr loftinu.

Heimild: Ruv.is