Home Fréttir Í fréttum Gámur fluttur án leyfis eig­anda og öllu stolið úr honum

Gámur fluttur án leyfis eig­anda og öllu stolið úr honum

39
0
Gámur Landslagna áður en hann var fluttur á geymslusvæðið án hans vitundar. AÐSEND

Eigandi pípulagningafyrirtækisins Landslagna segir að gámur í eigu fyrirtækisins, sem staðsettur var á einkalóð þess, hafi verið fluttur út fyrir bæjarmörkin í dag án hans vitundar. Þar hafi pípulagningar- og hreinlætisvörum að andvirði tíu til fjórtán milljóna króna verið stolið úr gámnum. Eigandinn hyggst lögsækja flutningaþjónustuna.

<>

Almar Gunnarsson pípulagningameistari er eigandi Landslagna ehf. Í samtali við fréttastofu segist hann hafa geymt vinnuáhöld í fjörutíu feta gámi á einkalóð Landslagna við Fiskislóð í Reykjavík. Honum hafi brugðið í brún í dag þegar hann mætti á Fiskislóð og gámurinn verið á bak og burt.

Síðar hafi hann komist að því að flutningaþjónustan ET hafi fengið beiðni frá ótilgreindum aðila um að flytja gáminn á geymslusvæði á Hólmsheiði. Almar hafi þá farið á svæðið, þar sem hann kom að gámnum tómum.

Almar segir að verðmæti upp á tíu til fjórtán milljónir hafi verið í gámnum.

„Þjófarnir hringdu bara í ET flutninga úr einhverjum svona burner-síma og báðu um flutning á gámnum. Og ET mætti á lóðina, tók gáminn, fór með hann upp eftir og hitti ekki einn né neinn. Svo var bara gámurinn tæmdur,“ segir Almar í samtali við fréttastofu.

Hann hafi haft samband við ET flutninga, þar sem hann fékk þær upplýsingar um að reikningur yrði sendur á smíðafyrirtæki staðsett á Akureyri vegna flutninganna. Það fyrirtæki kannist hins vegar ekkert við að hafa beðið um að flytja gám fyrir sunnan.

Auðveldara en að panta pítsu

„Ég er búinn að tala við tryggingafélagið mitt og þeir eru að skoða þetta. Ég er búinn að tala við lögmenn og þeir vilja meina að ET séu ábyrgir af því að það eru þeir sem flytja gáminn að beiðni þjófanna,“ segir Almar.

„Og ET er einhvern veginn alveg sama. Ég hringdi í þá og þeir sögðu mér bara að tala við lögfræðing.“

Hann segir undarlegt og fyndið að auðveldara virðist að láta flytja gám frá einum stað til annars en að panta pítsu.

Kristmundur Einarsson framkvæmdastjóri ET flutninga vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband.

Heimild: Visir.is