Home Fréttir Í fréttum Segir umhverfisslys í uppsiglingu á Laugarnestanga

Segir umhverfisslys í uppsiglingu á Laugarnestanga

86
0
Hér sést hvar fyrirhugað er að ný landfylling komi á Laugarnestanga í Reykjavík. RÚV – Jónmundur Gíslason

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, segir að fyrirhuguð landfylling á Laugarnestanga muni hafa vond áhrif á umhverfi og dýralíf á svæðinu.

<>

Borgarfulltrúi Vinstri grænna telur að umhverfisslys sé í uppsiglingu á Laugarnestanga í Reykjavík. Þar er búið að heimila 40 þúsund fermetra landfyllingu til viðbótar við þá sem fyrir er.

Landfyllingin eyðileggi eina síðustu óspilltu grjótfjöru borgarinnar og hafi mikil og vond áhrif á dýralíf, gróðurfar og náttúruminjar.

Á fundi borgarráðs í fyrra mánuði var lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur um breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis vegna stækkunar á landfyllingu. Málið var samþykkt.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lét bóka að stækkunin væri út í hött og valtað væri yfir lífríki og fjöru. Líf Magneudóttir, áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna, lét einnig bóka andstöðu við áformin.

„Við erum ekki á móti landfyllingum per-se en það þarf að vanda vel til verka hvar þær komi og hvaða áhrif þær hafa. Bæði varðandi sjónmengun en líka bara hvaða áhrif þær hafa á dýralíf og náttúruminjar á svæðinu.“

Þá sé Laugarnestangi verðmætur vegna menningarminja.

„Og ég held að við ættum frekar að lyfta upp, einhvern veginn, útivistargildi svæðisins, og friða það að einhverju leyti.“

Allmikil landfylling er nú þegar á þessu svæði. Efni í hana kom úr grunni nýs Landspítala. Til skoðunar var hvort nýjar höfuðstöðvar Faxaflóahafna myndu rísa þar. Ekki hefur orðið af því.

„Þannig að ég held að við ættum bara að nema aðeins staðar og endurmeta hvað komi þarna,“ segir Líf.

Heimild: Ruv.is