Zeppelin arkitektar hafa auglýst eftir samstarfsaðila til að kaupa Perluna og byggja þar hótel, heilsulind og baðlón. Orri Árnason arkitekt, segir að hugmyndin sé rúmlega tíu ára gömul, en nú sé aftur tækifæri til að láta hana raungerast.
Í dag birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu þar sem auglýst var eftir samstarfsaðila í til að kaupa Perluna og reisa þar heilsulind. Um áform arkitektanna má lesa á heimasíðu Zeppelin.
Lúxusþjónusta og verðlagning taki mið af því
„Hugmyndin er í meginatriðum sú að ofan á núverandi vatnstanka verði byggð laug sem hringi Glerhvelfinguna og að utan á vatnstankana verði byggðir nokkurs konar herbergjatankar.
Útsýnispallurinn verður færður til, en Orri leggur á það ríka áherslu að aðgengi að honum verði áfram ókeypis og öllum frjáls,“ segir í tilkynningu Zeppelin.
„Laugin er rúsínan í pylsuendanum, raunar yrði frekar um að ræða röð heitra potta í laug sem hringaði glerhvelfinguna. Þessi vatnagarður yrði skilgreindur sem lúxusþjónusta og myndi verðlagningin taka mið af því,“ segir enn fremur.
Sjá kynningarmyndband arkitektastofunnar.
Hafa unnið lengi að hugmyndinni
Orri Árnason hjá Zeppelin, segir að hugmyndin hafi komið fram þegar Perlan var fyrst sett í söluferli fyrir rúmlega tíu árum síðan. Þá hafi Zeppelin og fjárfestar gert tilboð í Perluna sem náði ekki í gegn. Þá var hugmyndin aðeins að hafa hótelherbergi í tönkunum, en nú er búið að þróa hugmyndina lengra með viðbyggingu og baðlóni á þakinu.
„En mér fannst þessi hugmynd sem við höfðum svo góð, að við ákváðum að þróa hana aðeins betur. Svo liggur þessi hugmynd bara í loftinu, þangað til borgin auglýsir Perluna aftur til sölu. Þá ákvað ég að það væri best að láta bara vaða aftur,“ segir Orri.
Hann segir að til þess að þetta verði að veruleika þurfi að vera pólitískur vilji fyrir því. Hann segir að framkvæmdirnar myndu auka verðmæti Perlunnar mjög mikið, og hún myndi stækka mjög mikið að umfangi.
Heimild: Visir.is