Home Fréttir Í fréttum Mikil útgjöld vegna Hornafjarðarfljóts eitt af því sem frestar samgönguáætlun

Mikil útgjöld vegna Hornafjarðarfljóts eitt af því sem frestar samgönguáætlun

76
0
Framkvæmdir við eina af fjórum brúm á nýjum vegi yfir Hornafjarðarfljót. Ístak – Aron Örn Karlsson

Ríkið leggur mun meira fé í nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót en reiknað var með. Það er ein af ástæðum þess að ekki var hægt að klára samgönguáætlun á Alþingi, segir formaður Umhverfis- og samgöngunefndar. Fleiri forsendur séu að breytast.

<>

Formaður Umhverfis- og samgöngunefndar segir að ómögulegt hafi verið að klára samgönguáætlun fyrir þinglok vegna þess að forsendur hafi brostið. Til að mynda sé viðhaldsþörf vega meiri og ríkið sé að leggja mun meira fé í nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót en reiknað var með.

Margir bíða spenntir eftir nýrri samgönguáætlun þar sem skýrist í hvaða í vegaframkvæmdir verði ráðist á næstu árum. Gert var ráð fyrir því að Alþingi afgreiddi áætlunina á þessu þingi en meirihlutinn í Umhverfis- og samgöngunefnd ákvað að fresta því til næsta þings.

Bjarni Jónsson, formaður nefndarinnar, segir að forsendur hafi í raun verið á fleygiferð undanfarið. Samgönguáætlun eigi að ríma við fjármálaáætlun og tryggja þurfi að það verði af verkefnum sem Alþingi samþykkir. Fjármögnun sumra verkefna sé óljós.

„Mun meiri viðhaldsþörf í vegakerfinu“

„Það er ekki búið að taka ákvarðanir eða útleggja hvernig eigi að standa að gjaldtöku þar sem það á við. Við erum líka að sjá það að það eru mörg verkefni sem var búið að samþykkja hér í síðustu samgönguáætlun að væri farið í, sum hver ættu að vera búin og önnur hafin sem ekki hefur raungerst.

Við höfum líka séð að það er orðin mun meiri viðhaldsþörf í vegakerfinu í heild sinni og meira álag heldur en menn höfðu gert ráð fyrir og það þarf að bregðast við því,“ segir Bjarni.

Hann hafnar því að vinna við samgönguáætlun fari á byrjunarreit þó hún frestist fram á haust. Mikil vinna hafi verið unnin og hún nýtist.

Skortir skýrari upplýsingar um stöðu stærstu verkefna

Einn óvissuþátturinn sé nýr vegur veg yfir Hornafjarðarfljót sem sé mun dýrari en reiknað var með. Sú samvinnuframkvæmd hafi farið af stað án þess að fjármögnun frá einkaaðilum hafi verið tryggð.

„Og nú samkvæmt síðustu tölum þá stefnir sú framkvæmd í að vera 8,9 milljarðar. Og ekki í sjónmáli beinlínis hvernig eigi að standa að því að hefja gjaldtöku til þess að hafa upp í þann kostnað. Á þessu þarf að taka og svo höfum við ekki nægjanlega skýrar upplýsingar um stöðu stærstu verkefna. Síðan er tækifæri til þess að taka enn frekar tillit til samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem er á lokametrunum,“ segir Bjarni Jónsson, formaður Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Í facebook færslu Bjarna þar sem hann útskýrir frestun á afgreiðslu samgönguáætlunar bendir hann líka á að samningaviðræður við útboðsaðila um fjárhagslega umgjörð nýrrar Ölfusárbrúar. Beðið sé eftir niðurstöðum úr þeim viðræðum til að hægt sé að ákveða næstu skref.

Heimild: Ruv.is