Kostnaður vegna Nýs landspítala hefur aukist um rúmlega 840 milljónir milli áætlana. Stjórnendur verkefnisins segja breytinguna óverulega í ljósi krefjandi aðstæðna á heimsmarkaði.
Nýr landspítali við Hringbraut er eitt stærsta framkvæmdaverkefni Íslandssögunnar. Stærsta bygging hans, meðferðarkjarninn, er að taka á sig mynd. Fljótlega hefst vinna á þakinu sem er áætlað að verði tilbúið snemma á næsta ári.
Stjórnendur Nýs landspítala segja í tilkynningu um að uppfærð kostnaðaráætlun sýni að uppbygging spítalans standist kostnaðaráætlanir, með 0,6% hækkun, sem á verðlagi febrúarmánaðar eru um 842 milljónir. Fram kemur að breytingarnar fylgi verðlagsþróun frá í október 2022.
Í kostnaðar- og tímaáætluninni segir að hvort tveggja hafi komið fram lækkanir og hækkanir í mismunandi þáttum verkefnisins.
Vegna innrásar Rússa í Úkraínu hefur orðið hækkun á stáli og burðarvirki og undirstöður voru dýrari í rannsóknarhúsi en áætlanir gerðu ráð fyrir en á móti lækkaði kostnaður við önnur verkefni, að því er segir í áætluninni.
Þá hefur vísitala hækkað umtalsvert milli áætlana.
Reiknað er með 23,5 milljarða heildarkostnaði fyrir þetta ár. Þar af eru tæpar 400 milljónir í áætlaðar verðbætur.
Heimild: Ruv.is