Home Fréttir Í fréttum Bygging heilsugæslu í Þórunnarstræti enn til skoðunar

Bygging heilsugæslu í Þórunnarstræti enn til skoðunar

40
0
Árið 2023 var ákveðið að heilsugæslustöð myndi rísa við Þórunnarstræti á Akureyri, þar sem áður var tjaldsvæði. Björgvin Kolbeinsson – RÚV

Árið 2019 gaf ráðherra út að á Akureyri væri þörf fyrir tvær heilsugæslustöðvar. Fimm árum síðar er enn óvíst hvenær hin seinni rís.

<>

Heilbrigðisráðuneytið segir enn stefnt á að tvær heilsugæslustöðvar verði á Akureyri. Ekki hefur þó enn fengist verktaki til byggja nýja stöð, sem til stóð að opna 2026.

Í febrúar og maí í fyrra voru gerðar tvær tilraunir til þess að bjóða út byggingu nýrrar heilsugæslu á Akureyri, á svokölluðum tjaldsvæðisreit við Þórunnarstræti. Þau báru ekki árangur og síðan hefur lítið heyrst af framkvæmdum.

Fyrir fjórum mánuðum færði heilsugæsla bæjarins sig úr illa förnu Amaro-húsinu við Hafnarstræti og yfir í nýtt húsnæði af svipaðri stærð.

Starfsemi heilsugæslunnar rúmast ekki öll þar og notendur eru fleiri en á meðalstöð á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum að leigja hátt í 1200 fermetra úti í bæ, þannig að það er full þörf á því að fá þessa stöð“, segir Jón Helgi Björnsson, er forstjóri HSN.

Í skriflegum svörum heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu, um hvenær útboð gæti farið fram að nýju, segir að verið sé að skoða næstu skref í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkiseignir, HSN og Akureyrarbæ.

Hafa ekki rýnt nýtingu heilsugæslunnar í Sunnuhlíð
Heilbrigðisráðherra sagði við opnun heilsugæslunnar í Sunnuhlíð fyrir fjórum mánuðum að rýnt yrði í hvernig sú stöð nýttist áður en lengra væri haldið. Engin sérstök úttekt hefur farið fram á nýtingu hennar enn, er fram kemur í svörum ráðuneytisins.

„Nei, slík úttekt hefur ekki farið fram enda stutt síðan ný og sérútbúin 1800 fm. heilsugæslustöð í Sunnuhlíð var vígð, þann 4. mars.“

Heilsuvernd hefur lýst áhuga á rekstrinum, en ráðuneytið hefur ekki gefið út hvort stöðin yrði ríkis- eða einkarekin.

Ákvörðun ráðherra, frá 2019, um að tvær heilsugæslustöðvar eigi að vera í bænum, stendur óbreytt að sögn ráðuneytisins. Því var ekki svarað hvenær Akureyringar megi vænta þess að ný heilsugæslustöð rísi, en forstjóri HSN telur ólíklegt að þær dyr opni eftir tvö ár – eins og stefnt var að.

Heimild: Ruv.is