Home Fréttir Í fréttum Á­ætlanir gera ráð fyrir að hraun fari yfir lagnir

Á­ætlanir gera ráð fyrir að hraun fari yfir lagnir

27
0
Kristinn Harðarsson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku. Orkuverið er í fullum rekstri og atburðir gærdagsins höfðu engin áhrif á starfsemina. VÍSIR/EINAR

Hrauntunga úr eldgosinu við Sundhnjúka er nú í um 700 metra fjarlægð frá lögnum orkuversins HS orku. Framkvæmdastjóri segir að búið sé að gera allt sem hægt er til að tryggja órofna starfsemi orkuverksins og að atburðir gærdagsins hafi ekki haft nein áhrif.

<>

Hrauntungan sem rann yfir Grindavíkurveg í gær hefur stöðvast nær alveg, eftir að hún ruddist fram með talsverðum hraða í gærmorgun og náði yfir veginn í kringum hádegi. Annað sambærilegt áhlaup gæti þó verið yfirvofandi.

„Við erum viðbúin öllu. Núna er streymið frá gígnum að safnast á sama stað og var fyrir þetta áhlaup, í ákveðinni kvos við Sýlingarfell. Það er ekkert útilokað að það komi annað áhlaup en það er útilokað að segja til um hvenær það gæti verið, það gætu verið nokkrir daga í það,“ segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofunni.

Áætlanir gera ráð fyrir að hraun fari yfir lagnir
Hrauntungan er nú í um 700 metra fjarlægð frá lögnum orkuverksins HS orku. Að sögn Kristins Harðarssonar, framkvæmdastjóra framleiðslu hjá HS Orku er orkuverið í fullum rekstri og atburðir gærdagsins höfðu engin áhrif á starfsemina.

„Staðan hjá okkur er þannig séð mjög góð. Okkar áætlanir gera ráð fyrir að hraun fari yfir og að það muni ekki hafa afleiðingar.“

Forsvarsmenn Hs orku séu í stöðugu samtali við almannavarnir og vinnuhópa á þeirra vegum til að tryggja órofna starfsemi orkuversins. Kristinn telur að búið sé að gera allt sem hægt er til að verja lagnirnar, meðal annars hafa þær verið fergjaðar með jarðvegsfyllingu.

„Svo hefur Landsnet hækkað háspennumöstur og það eru varnargarðar þar í kring. Þannig það er búið að undurbúa innviði fyrir að hraun fari þar yfir og í raun miða okkar áætlanir við það. Það er búið að vinna mikla undirbúningsvinnu.“

Heimild: Visir.is