Home Fréttir Í fréttum Bygging gríðarlega umdeilds hverfis í Garðabæ komin á næsta stig

Bygging gríðarlega umdeilds hverfis í Garðabæ komin á næsta stig

86
0
Teikningar af húsum sem rísa eiga í Arnarlandi. Mynd/Garðabær

Umdeilt nýtt hverfi á svokölluðum Arnarneshálsi, sem mun heita Arnarland, í Garðabæ verður brátt kynnt. Áætlanirnar hafa vakið reiði íbúa í nærliggjandi hverfum, bæði í Garðabæ og í Kópavogi og hafa þeir sameinast um að mótmæla þeim.

<>

DV greindi fyrst frá málinu í september á síðasta ári. Í október var efnt til undirskriftasöfnunar gegn áformum Garðabæjar um byggingu á svæðinu, sem í dag er óbyggður melur.

Í Arnarlandi á að reisa mjög háa byggð, langtum hærri en í nærliggjandi hverfum, það er í Akrahverfi í Garðabæ og Smárahverfi í Kópavogi. Arnarland á að vera svokallað heilsuhverfi, þar á að reisa 500 íbúðir fyrir 50 ára og eldri, en einnig munu fyrirtæki, einkum heilsutengd, hafa aðstöðu á svæðinu.

Hafa íbúar meðal annars mótmælt hæð húsanna sem á að reisa, það er allt að níu hæðum, umferðaraukningu og að borgarlínunni verði beint í gegnum Akrahverfið í kjölfarið en óvíst er að henni verði beint þar í gegn. Þá hefur samráðsleysi við íbúa Smárahverfis í Kópavogi verið gagnrýnt, en bygging Arnarlands hefur jafn vel meiri áhrif á þá en íbúa Garðabæjar.

Komið á næsta skref
Á fundi bæjarráðs á þriðjudag var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu um að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna. Það er er varðar svæðið á Arnarneshálsi. En fundur bæjarstjórnar er haldinn í dag, fimmtudag.

„Tillaga hefur verið kynnt Skipulagsstofnun og fyrir liggur að stofnunin gerir ekki athugasemd við að skipulagstillagan verði auglýst samkvæmt 31. gr. enda verði brugðist við athugasemdum við tilgreind atriði,“ segir í bókun ráðsins. „Tillagan skal auglýst samhliða tillögu að deiliskipulagi fyrir sama svæði.“

Veruleg óánægja
Sama dag hóuðu íbúar sinn eigin fund til að ræða stöðuna. Var þar meðal annars rætt um að stofna formleg samtök og ráða lögmann.

Staðsetning hins nýja hverfis.

„Íbúar eru mjög ósáttir við það hvernig þessi framkvæmd er sett fram. Framsetning Garðabæjar á hverfinu er ekki eðlileg þar sem hverfið virðist ekki tala tillit til nærliggjandi íbúahverfa.

Athugasemdir sem lagðar hafa verið fram nú þegar með undirskriftalistum hafa ekki fengið hljómgrunn hjá Skipulagsnefnd eða Bæjarráði og ekkert hefur verið útskýrt hvernig koma eigi í veg fyrir að þessi nýja byggð muni ekki hafa gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir íbúa í nágrenni við Arnarland,“ segir í bókun fundarins.

Aðgengið martröð
Bent er á að þegar tillagan fer til Skipulagsstofnunar fái íbúar tækifæri til þess að senda inn formlegar athugasemdir. Þá þurfi einnig að safna öðrum undirskriftalista gegn áformunum.

Þá er bent á að kynningarfundur Garðabæjar verði haldinn þann 11. júní næstkomandi. „Allir sem vettlingi geta valdið þurfa að mæta,“ segja íbúar.

Nefnt er að áhyggjur íbúa séu vegna skuggamyndunar, áhrif vinds, skerts útsýnis, skerðingar einkalífs, aukinnar bílaumferð, aukinnar hljóðmengunar, aukinnar loftmengunar, aðgengi að þjónustu og fleira. „Aðgengi til og frá Arnarlandi verður martröð ef núverandi deiliskipulag gengur eftir,“ segja íbúarnir.

Heimild: Dv.is