Home Fréttir Í fréttum Áttu Esso-húsið í þrjú ár

Áttu Esso-húsið í þrjú ár

136
0
Fasteignin að Suðurlandsbraut 18 er í daglegu tali þekkt sem Esso-húsið en þar voru höfuðstöðvar Olíufélagsins sem lét reisa húsið árið 1975. Ljósmynd: Sveinn Ólafur Melsted

Eyja fjárfestingarfélag, í eigu hjónanna Birgis Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, seldi nýlega Esso-húsið að Suðurlandsbraut 18.

<>

Viðskiptablaðið greindi frá því í vikunni að Ágúst Guðmundsson, einn stofnenda og aðaleiganda Bakkavarar, hefði keypt fasteignina að Suðurlandsbraut 18 á 1.470 milljónir króna í apríl í gegnum nýstofnaða félagið SB18 ehf.

Seljandinn er Eyja fjárfestingarfélag, sem er í eigu hjónanna Birgis Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, sem keypti húsið í árslok 2020 á 1.200 milljónir króna.

Þegar Viðskiptablaðið greindi frá viðskiptunum í ársbyrjun 2021 sagðist Birgir sjá gríðarleg tækifæri á svæðinu í kringum Esso-húsið, t.d. með tilkomu Borgarlínu, tengingu Skeifunnar við Hlemm, uppbyggingu Heklureitsins o.s.frv.

Hann sagði frá hugmyndum um að þróa eignina áfram, mögulega með byggingu íbúða og frekara skrifstofurými.

„Við erum með mjög trausta leigjendur í hluta af húsnæðinu, Kvikmyndaskóla Íslands, og erum með leyfi til þess að vera með íbúðir í húsnæðinu. Auk þess erum við með byggingarrétt sem býður upp á möguleikann á að stækka húsnæðið. Þetta er því mjög áhugavert verkefni sem felur í sér möguleika á allt að um 3 þúsund fermetra stækkun auk frekari breytinga. Svo skemmir það heldur ekki fyrir að þetta er, að okkar mati, eitt af fallegustu húsum borgarinnar,“ sagði Birgir.

Birgir Bieltvedt fjárfestir.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Í sömu umfjöllun var minnst á aðra fasteign á svæðinu, Skipholt 23, sem Eyja fjárfestingarfélag hafði einnig keypt fjórum árum áður. Eyja seldi þá fasteign á 350 milljónir króna undir lok árs 2022.

Þess má geta að Birgir hefur unnið að uppbyggingu Domino‘s víðs vegar um Norðurlöndin, nú síðast í Danmörku, líkt og Viðskiptablaðið fjallið nýlega um.

Heimild: Vb.is