Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvort að að verktakar sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna gruns á stórfelldum skattalaga- og bókhaldsbrotum hafi gerst sekir um mansal. Frá þessu er greint í Fréttatímanum.
Er greint frá því að að lögreglumenn hafi verið slegnir þegar þeir sáu þær nöturlegu aðstæður sem sumir verkamenn frá Austur-Evrópu bjuggu við en víða voru raflagnir, hiti og salernisaðstaða í ólagi.
Níu manns voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum héraðssaksóknara og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi á þriðjudag vegna málsins. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir sex hinna handteknu og féllst héraðsdómur á kröfuna yfir fimm þeirra.
Verktakafyrirtækin sem um ræðir eru fleiri en tvö og á starfa á suðvesturhorni landsins. Starfsmennirnir eru grunaðir um stórfelld skattalagabrot, brot á bókhaldslögum, fjárdrátt og peningaþvætti. Þá var einnig komið upp um kannabisræktun í aðgerðunum. Leikur grunur á að fleiri hundruð milljónum króna hafi verið skotið undan.
Málið kom upp við eftirlit skattrannsóknarstjóra sem hafði í kjölfarið samband við embætti Héraðssaksóknara þar sem aðgerðin hefur verið í undirbúningi.
Heimild: Vísir.is