Mynd er nú að komast á nýja efri hæð vallarhússins við Fellavöll í Fellabæ en búist er við að veggir og þak verði að fullu uppsett í lok mánaðarins. Þrátt fyrir það er ólíklegt að húsið verði tekið í notkun á þessu sumri.
Byggingarfyrirtækið MVA hefur undanfarna daga reist veggi efri hæðarinnar en verkið er einfaldara en venjan er sökum þess að við byggingu hússins í upphafi var ávallt gert ráð fyrir efri hæð. Fyrirtækið mun að öllum líkindum ljúka sínum hluta verksins, veggi, þak og gluggum, fyrir mánaðarmót.
Á efri hæðinni er gert ráð fyrir að koma fyrir eldhúsi og lítilli sjoppu auk salarkynna, salerna og aðstöðu fyrir þjáfara. Þó ekki sé ýkja stórt í fermetrum mun viðbótin gjörbreyta aðstöðu við völlinn til hins betra.
Það er ungmennafélagið Höttur sem stendur fyrir stækkuninni og til að ná endum saman var hugmyndin frá upphafi að sjálfboðaliðar félagsins tækju að sér að ljúka framkvæmdum innandyra þegar MVA lyki sínum hluta. Það er fremur ólíklegt að það takist að klára það og opna húsið þetta sumarið að sögn Björgvins Steinars Friðrikssonar.
„Það er auðvitað töluvert mikið eftir að gera þó veggir og þak sé komið. Einangrun, rafmagn og pípulagnir allar fyrir utan þil og veggi innandyra svo það þarf margar færar hendur til.
Auðvitað vorum við öll að vona að það tækist að koma húsinu upp fyrr svo hægt væri að byrja fyrr en fyrst það náðist ekki er hæpið að opnað verði þarna þetta sumarið.
Til þess þarf sjálfboðaliða og fyrir utan hvað erfitt er að fá sjálfboðaliða þessa dagana þá eru sumarfrí að hefjast og fæstir vilja nú eyða slíku í meiri vinnu. En vonandi getum við haldið opnunarveislu þegar líða fer að haustinu.“
Heimild: Austurfrett.is