Lögð voru fram fjörutíu og átta tilboð frá átta aðilum í byggingarrétt lóða í Vatnsendahvarfi í nýafstöðnu útboði. Útboðið, sem lauk á hádegi í gær, þriðjudaginn 21.maí, var fyrsti áfangi úthlutunar í Vatnsendahvarfi.
Í boði voru sex lóðir lítilla fjölbýla svonefndra klasahúsa, tveggja og þriggja hæða auk bílakjallara. Stærð lóða var frá 3300 m2 upp í 7285 m2.
“Virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikil þátttaka er í útboðinu og verður spennandi að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem er framundan á þessu nýja hverfi í Kópavogi. Vatnsendahvarfið er einstakt hverfi staðsett á hæsta punkti höfuðborgarsvæðsins og augljóslega mikill áhugi á hverfinu. Í næsta áfanga verður lóðum fyrir sérbýli úthlutað,” segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.
Tekið var á móti tilboðum í gegnum útboðsvef Kópavogsbæjar. Hæstu tilboð verða metin út frá úthlutunarskilmálum hvort þau teljist gild og svo tekin til afgreiðslu á fundi bæjarráðs fimmtudaginn 30. maí og í kjölfarið til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Í Vatnsendahvarfi verða 500 íbúðir í fjölbýli og sérbýli og fellur byggðin vel að nágrenninu. Lögð er áhersla á umhverfisvæna byggð og góðar samgöngutengingar fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur.
Tilboðsgjafar sem áttu hæsta boð eru skuldbundnir til að leggja inn umsókn um byggingarleyfi eigi síðar en 12 mánuðum frá úthlutun lóðar. Úthlutun lóða telst samþykkt frá og með staðfestingu bæjarstjórnar. Stefnt er að því að lóðir í fyrsta áfanga verði byggingarhæfar í apríl 2025.
Í næsta áfanga verður úthlutað einbýlishúsalóðum, parhúsalóðum, fjölbýlishúsalóð og klasahúsalóðum. Stefnt er að því að útboð hefjist síðsumars.
Skoða tilboð í lóðir í Vatnsendahvarfi
Heimild: Kopavogur.is