Home Fréttir Í fréttum Stefnt að því að ljúka samninga­við­ræðum um Ölfus­ár­brú nú í maí

Stefnt að því að ljúka samninga­við­ræðum um Ölfus­ár­brú nú í maí

88
0
Fyrirhuguð Ölfusárbrú. Horft að brúarstæðinu úr vestri í átt að Laugardælum. VEGAGERÐIN

„Við erum búin að vera í samningsviðræðum undanfarnar vikur og stefnum á að ljúka þeim í maí,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, um stöðu mála er varðar nýja Ölfusárbrú.

<>

Tilboð í framkvæmdina voru opnuð 12. mars síðastliðinn en þá kom í ljós að aðeins einn aðili af fimm sem lýst höfðu áhuga á verkinu skilaði tilboði, ÞG verktakar ehf. Vegagerðin sagði um að ræða upphafstilboð en farið yrði í samningaviðræður og endnalegt tilboð myndi liggja fyrir að þeim loknum.

„Viðræðurnar ganga út á það hvort það sé hægt að auka hagkvæmni í verkinu og við erum bara að vinna að því,“ segir Guðmundur.

Guðmundur vildi ekki svara því beint hvort hann væri bjartsýnn á að lending næðist í málið en ef svo yrði væri gert ráð fyrir að endanlegt tilboð lægi fyrir í júní og verksamningur í júlí.

Að sögn Guðmundar myndu undirbúningsframkvæmdir hefjast strax í sumar eða haust en þær yrðu unnar samhliða endanlegri hönnun verksins. Undirbúningurinn felst meðal annars í jarðvinnu á brúarstæðunum og að „koma sér út í eyjuna“, eins og Guðmundur kemst að orði.

Umrædd eyja er Efri-Laugardælaeyja, þar sem reistur verður 60 metra hár turn.

Enn er stefnt að því að framkvæmdinni ljúki haustið 2027.

Ítarlegar upplýsingar um verkið má finna á vef Vegagerðarinnar.

Heimild: Visir.is