Home Fréttir Í fréttum Mikill vilji fyrir byggingu smáheimila: “Svona sem byltingar hefjast“

Mikill vilji fyrir byggingu smáheimila: “Svona sem byltingar hefjast“

145
0

Greinilegt er að mikill áhugi er á því að boðið verði upp á fjölbreyttari húsa- og byggingarkost á höfuðborgarsvæðinu en ríflega tvö hundruð manns sóttu málfund í dag um smáhýsi á Íslandi. Á fundinum var málið rætt frá hinum ýmsu ólíku hliðum.

<>

Áhugafólk um smáhýsi, einnig kallað „tiny homes“ eða smáheimili, stóð fyrir fundinum í dag í samstarfi við Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra. Upphaflega stóð til að halda fundinn í húaskynnum Velferðarráðuneytisins en þegar í ljós kom hversu margir höfðu boðað komu sína var hann færður yfir í Sjóminjasafnið.

Eygló ávarpaði samkomuna auk borgar- og bæjarfulltrúa, starfsmanns Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem starfar við breytingu á byggingarreglugerð og áhugafólks um smáhýsi.

Á fundinum kom í ljós að vilji er fyrir hendi hjá öllum aðilum, ríki, sveitarfélögum og íbúum á höfuðborgarsvæðinu fyrir því að rýmka byggingarreglugerð svo hægt verði að byggja og búa í smáhýsum, allt niður í tuttugu fermetra húsnæði.

Húsnæðismálaráðherra hvatti fólk úr stjórnsýslunni til þess að mæta á fundinn en málið þekkir hún persónulega vegna þess hve þröngt hún bjó ásamt manni sínum og börnum þegar hún flutti til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum. Nú er hún komin í 150 fermetra húsnæði, með hálfgert víðáttubrjálæði, og finnur svo sterkt hvernig fjölskyldan sækir í samveruna sem minna húsnæði krafðist að þau „þyldu“.

Fólkið með stærstu húsin hafði mestan áhuga á skuldaleiðréttingunni
„Við heyrum reglulega, við sem tölum fyrir fjölbreyttari húsakosti, að menn hafi áhyggjur af því að verið sé að reisa skuggahverfi eða fátækrahverfi,“ sagði Eygló við upphaf fundarins í dag og spurði svo í kjölfarið: „Hvað er fátækt?“

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi skuldaleiðréttingu voru kynntar í nóvember 2014. Eygló sagði á fundinum að þeir sem áhugasamastir hafi verið um aðgerðirnar hafi verið þeir sem áttu stærstu húsin og skulduðu mest.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi skuldaleiðréttingu voru kynntar í nóvember 2014. Eygló sagði á fundinum að þeir sem áhugasamastir hafi verið um aðgerðirnar hafi verið þeir sem áttu stærstu húsin og skulduðu mest. VÍSIR/VILHELM .

Eins og kunnugt er kemur Eygló úr Framsóknarflokknum sem talaði fyrir skuldaleiðréttingunni í kosningabaráttunni til Alþingis árið 2009.

„Fólkið sem hafði mestan áhuga á að heyra um skuldaleiðréttinguna voru þeir sem bjuggu í stærstu og flottustu húsunum, áttu stærsta og dýrasta bílinn, fólkið sem skuldaði tugi milljóna.“ Það sé ekki það sama að eiga eitthvað og að eiga eitthvað skuldlaust.

Eygló spurði fundargesti hvort það teldist fátækt að skulda ekkert í húsnæðinu sínu.

„Eftir að hafa farið í gegnum allar tegundir af lánum á Íslandi þá get ég með sanni sagt að ég tel að frelsi felist meðal annars í því að maður sé ekki að drukkna í skuldum.“

Hún nefndi þrjú atriði sem fólk í landinu getur nýtt sér í því skyni að lækka byggingarkostnað. Fyrst nefndi hún frumvörp í þinginu sem snúa að stofnframlögum að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Hópur af fólki undir ákveðnum tekjueignamörkum getur tekið sig saman og stofnað almennt íbúðarfélag sem skilgreinist þá sem sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri, félagið getur sótt um að fá 30 prósent stofnframlag frá ríki eða sveitarfélögum og svo leitað eftir fjármögnun fyrir restinni.

Þá nefndi hún í öðru lagi byggingarsamvinnufélög. Í gegnum slík samvinnufélög geta áhugasamir tekið sig saman, byggt húsnæði, deilt áhættunni og í lokin leyst upp félagið þannig að hver eignast sitt húsnæði.

Í þriðja lagi nefndi Eygló samráðsvettvang um hvernig hægt sé að lækka byggingarkostnað og stakk upp á því að hægt væri að koma á námskeiðum þar sem fólki yrði kennt að byggja sjálft hefði það áhuga á slíku.

Áhugafólk um smáheimili tók sig saman og stóð fyrir fundinum með stuðning frá húsnæðismálaráðherra. Það lýsti skoðunum sínum á smáheimilum á fundinum.

.

Fjölmargir kostir smáheimila
Áhugafólk um svokallað Tiny Houses fyrirkomulag kvaddi sér hljóðs hvert á fætur öðru á fundinum og lýsti sínu draumahúsnæðisfyrirkomulagi og ástæðunum sem að baki liggja.

Ekkert eitt virðist heilla umfram annað í þessum efnum heldur koma margar mismunandi ástæður saman og skapa jákvæða ímynd smáhýsa. Þannig var hugtakið sjálfbærni nefnt í þessu samhengi, fólk vill geta búið í húsnæði með aðgang að garði þar sem það getur ræktað eigin matvöru upp að einhverju marki.

Þá var nefnt að ekki væri þörf á stóru húsnæði fyrir alla heldur vildu fleiri fjárfesta í ferðalögum og upplifunum frekar en að fjárfesta í steypu og rými. Einnig var talað um að með smáhýsum væri hægt að skapa nánara samfélag. Fólk vildi ekki steypa sér í skuldir.

Sandra Borg Bjarnadóttir er upphafskona umræðunnar um Tiny Homes á Íslandi. Hún leiddi saman fjögurra manna hóp áhugafólks um að breyta lagaumhverfinu svo hægt sé að byggja slík smáheimili víðar og úr varð fundur dagsins. Til stendur að skapa formlegri vettvang í kringum umræðuna.

Sandra Borg Bjarnadóttir er upphafskona umræðunnar um Tiny Homes á Íslandi. Hún leiddi saman fjögurra manna hóp áhugafólks um að breyta lagaumhverfinu svo hægt sé að byggja slík smáheimili víðar og úr varð fundur dagsins. Til stendur að skapa formlegri vettvang í kringum umræðuna. VÍSIR/NANNA .

Unnið að breytingum á byggingarreglugerð
Þá var mikið talað um ungt fólk í þessu samhengi en eins og húsnæðismarkaðurinn er um þessar mundir er ákaflega erfitt fyrir unga manneskju að flytja að heiman, bæði vegna hás leiguverðs og erfðileika við að komast í gegnum greiðslumat og fá húsnæðislán.

En ekki var aðeins talað um ungt fólk heldur einnig þá sem vilja minnka við sig eftir að börnin eru flutt að heiman.

Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, er hlynntur breytingum á reglugerð sem mun gera landsmönnum kleift að byggja smáheimili.

Unnið er að breytingum á byggingarreglugerð í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

„Fyrstu skrefin voru stigin árið 2012 þó enginn virðist hafa tekið eftir því. Það voru margir sem vildu meina að ekki hefði verið hægt að lesa reglugerðina frá 1980 þannig að stúdíóíbúðirnar væru mögulegar. Með breytingunni voru tekin af öll tvímæli með það,“ sagði Hafsteinn Pálsson verkfræðingur hjá ráðuneytinu sem unnið hefur að breytingunum um nokkurt skeið.

Reglugerðin mun, ef breytingarnar ná fram að ganga, gera mögulegt að byggja íbúðir allt niður í tuttugu fermetra að stærð.

„Þetta er kannski aðalbreytingin. Að þessi kafli 6.7 í reglugerðinni verði endurskrifaður og valfrelsi aukið til mikilla muna.“

Jákvæðni í bæði borg og bæjum
Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sagði aðspurður að mikill vilji væri fyrir því hjá borginni að skipulagi yrði hagað þannig að auðveldara væri að byggja ódýrt húsnæði.

„Borgin leggur mikið upp úr því, eða við sem erum í skipulagsmálum í borginni, að hér verði hægt að byggja húsnæði fyrir alla, hvort sem fólk vill eiga það eða leigja.“

Hjálmar telur að fyrirhugaðar breytingar á byggingarreglugerð séu góðar og benti á að mark hefði verið tekið á Félagsstofnun stúdenta og Búseta við breytingarnar. Hjálmar tók vel í hugmyndir Eyglóar.

Áslaug Hulda, bæjarfulltrúi í Garðabæ, og Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður Umhverfis- og skipulagsnefndar Reykjavíkurborgar ávörpuðu fundinn.

Áslaug Hulda, bæjarfulltrúi í Garðabæ, og Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður Umhverfis- og skipulagsnefndar Reykjavíkurborgar ávörpuðu fundinn. VÍSIR .

„Við myndum fagna því mjög ef almennir borgarar myndu taka sig saman og stofna almenn húsnæðisfélög.“ Hann sagði borgina telja uppbyggingu á minna húsnæði ákaflega mikilvæga.

„Borgin er tilbúin til að gera allt sem þarf svo að hægt verði að byggja meira svona húsnæði.“
Bæjarfulltrúar frá bæði Garðabæ og Hafnarfirði ávörpuðu hópinn og voru báðir einstaklega jákvæðir um byggingu smáhýsa. Þau komu bæði á fundinn að ósk Eyglóar.

Gæði hverfa ekki síður mikilvægt atriði
„Ég held það sé svona sem byltingar hefjist. Fjórir einstaklingar sem hittast vegna hugsjóna sinna og svo ertu komin með risastóran fund og ráðherra sem hringir í fólk og segir öllum að mæta,“ sagði Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ.

Hún fjallaði um uppbyggingu smáhýsa frá hlið Garðabæjar en bæjarfélagið er jákvætt í garð þeirra.

Gera má ráð fyrir því að smáheimili verði vinsæll kostur í framtíðinni hér á landi ef litið er til þess hversu margir sóttu fundinn í dag. .

„Helsta sem við erum að skipuleggja núna er hugmyndasamkeppni um rammaskipulag fyrir svæði sem við hugsum sérstaklega fyrir ungt fólk,“ sagði Áslaug. Hugmyndin er að á svæðinu verði minni einingar.

„Þarna erum við að kalla eftir nýrri nálgun og að hugsað verði lengra en áður hefur verið gert.“ Þannig vill Áslaug ekki einungis að hugsað sé um minni einingar og hvernig hægt sé að nýta rýmið betur heldur einnig að smáhúsahverfin séu raunverulegur og spennandi valkostur.

„Á sama tíma erum við að hugsa um gæði hverfisins, það skiptir máli.“

Hún segir bæjarskrifstofuna finna mikið fyrir því að óskað sé eftir því að fá leyfi til að minnka stórt húsnæði.

„Hafsteinn og félagar í ráðuneytinu verða að fara að klára reglugerðina svo við getum farið að byggja smærra. Það er ákall í samfélaginu um einhverjar breytingar og það gerist ekkert nema við gerum það,“ sagði Áslaug og uppskar mikið lófatak úr salnum.

Fjölmargir sóttu fundinn í dag sem haldinn var í fallegu umhverfi Sjóminjasafnsins.

Einar Birkir Einarsson bæjarfulltrúi í Hafnarfirði segir bæjarfélagið vera að skoða þessi mál í kjölinn.

„Við höfum verið með í undirbúningi síðastliðna mánuði og það verður komið í loftið í þessum mánuði eða í maí það sem við viljum kalla Hafnarfjarðarmódelið,“ útskýrði Einar. „Það er að bjóða lóðir til fjárfesta og annarra þar sem leiguverðið er útgangspunkturinn.“

Þannig hyggst bæjarfélagið fella niður lóðagjöld til þeirra sem geta boðið upp á lægsta leiguverðið. Þá er starfræktur í Hafnarfirði vinnuhópur um þéttingu byggðar.

Á fundinum í dag var mikill hugur í fólki og greinilega margar hugmyndir á borðinu sem leyst geta húsnæðisvandann sem steðjar að íbúum á höfuðborgarsvæðinu. Facebook-síðan Tiny Homes á Íslandi hefur vaxið hratt en hún var stofnuð um áramótin og telur nú ríflega þrettán hundruð einstaklinga.

Heimild: Visir.is