Home Fréttir Í fréttum Heimstaden seldi íbúðir fyrir 11 milljarða

Heimstaden seldi íbúðir fyrir 11 milljarða

58
0
Egill Lúðvíksson er framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi. Ljósmynd: Samsett

Íbúðum í eignasafni Heimstaden á Íslandi fækkaði úr 1.677 í 1.507 í fyrra.

<>

Leigufélagið Heimstaden á Íslandi seldi íbúðir fyrir tæplega 11 milljarða króna á síðasta ári, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Íbúðum í eigu félagsins fækkaði úr 1.677 í 1.507 í fyrra.

Greint var frá því í maí á síðasta ári að Heimstaden hefði ákveðið að minnka umsvif sín á íslenskum leigumarkaði. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að viðræður um að fá lífeyrissjóði inn í hluthafahóp félagsins báru ekki árangur. Forsvarsmenn félagsins sögðu markaðsaðstæður fyrir fjárfestingu í langtímaleigu vera erfiðar.

Leigufélag Bú­seta keypti 42 í­búðir við Tanga­bryggju í Reykja­vík af Heimstaden síðasta sumar. Viðskiptablaðið sagði frá því að kaupverðið hafi verið í kringum 2,5 milljarða króna.

Egill Lúð­víks­son, fram­kvæmda­stjóri Heimsta­den á Ís­landi, sagði við Viðskiptablaðið í lok maí 2023 að nokkrir leigjendur félagsins væru að íhuga að kaupa íbúðirnar sem þeir leigðu af Heimstaden. Að öðru leyti væri félagið að horfa til þess að selja til aðila sem vildu leigja eignirnar áfram.

Stefnir og lífeyrissjóðir hyggjast tvöfalda eignasafnið

Í október síðastliðnum var greint frá því að sérhæfður sjóður hjá Stefni, SRE III slhf., hefði náð samkomulagi við Fredensborg AS, eiganda Heimstaden ehf., um möguleg kaup á öllu hlutafé í Heimstaden á Íslandi. Sjóðurinn, sem er alfarið í eigu 15 lífeyrissjóða, gekk frá kaupunum á íslenska leigufélaginu í mars síðastliðnum.

Kaupverðið nam tæplega 61 milljarði króna að meðtöldum yfirteknum skuldum, að því er mbl.is greindi frá. Sjóður­inn safnaði 40 millj­örðum króna í áskriftir til kaup­anna en þar af komu um 25 millj­arðar til greiðslu við kaupin.

Hinir 15 koma svo til greiðslu að ári liðnu og verða notaðir í að endurfjármagna og greiða upp áhvílandi lán leigufélagsins.

Í ítarlegri umfjöllun Viðskiptablaðsins um viðskiptin kom fram að sjóðurinn stefni á að tvöfalda eignasafn leigufélagsins á næstu árum upp í um það bil 3 þúsund íbúðir. Eins væri horft til þess að endurfjármagna óhagstæðar skuldir.

Eignir Heimstaden á Íslandi voru bókfærðar á 81 milljarð í árslok 2023, en þar af voru fastafjármunir um 72,8 milljarðar og veltufjármunir upp á 8,3 milljarða. Eigið fé var um 32,9 milljarðar.

Leigufélagið hagnaðist um 1,8 milljarða á árinu 2023, samanborið við 8,3 milljarða hagnað árið áður. Munurinn skýrist einkum af matsbreytingu fjárfestingareigna sem námu 3,4 milljörðum í fyrra en 11,1 milljarði árið 2022.

Leigutekjur félagsins námu 4.246 milljónum króna í fyrra og jukust um 6,6% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst úr 2,6 milljörðum í 2,8 milljarða, eða um 8%‏.

Heimild: Vb.is