Home Fréttir Í fréttum Þurfum að verja gersemar okkar betur

Þurfum að verja gersemar okkar betur

37
0
Pétur H. Ármannsson arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun segir brunavarnir í skikkanlegu lagi en það þurfi betri plön um björgun menningarverðmæta þegar eitthvað gerist. – Mynd/Rúv

Gera þarf betur til að tryggja björgun verðmæta verði eldsvoði í menningarsögulegum byggingum hér á landi, segir Pétur H. Ármannsson arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands. Brunavarnir í skikkanlegu lagi.

<>

Gera þarf betur til að tryggja björgun verðmæta verði eldsvoði í menningarsögulegum byggingum hér á landi, segir sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands. Kynna á leiðbeiningar um björgun menningardýrgripa úr merkustu kirkjubyggingum um landið, komi upp eldur.

Pétur H. Ármannsson arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun segir að þar hafi verið útbúnar leiðbeiningar um gerð björgunar- og rýmingaráætlana, verði einhver af friðuðum kirkjum landsins eldi að bráð. Miðað við önnur lönd þurfi að hafa björgun menningarverðmæta ofarlega í huga og bendir á að miklu hafi verið bjargað í brunanum í Børsen í Kaupmannahöfn þann 16. apríl síðastliðinn, þökk sé undirbúningi.

„Því það var einmitt það sem kom í ljós við brunann í Kaupmannahöfn núna nýverið að þar hafði verið gerð sérstök rýmingaráætlun, menn vissu nákvæmlega hvaða verðmætum þurfti að bjarga, í hvaða forgangsröð og hvar þau voru staðsett í húsinu,“ segir Pétur.

Hann nefnir einnig brunann í Notre Dame árið 2019 þar sem sérfræðingar í byggingunni voru hafðir með í ráðum og var þak kirkjunnar t.d. látið loga í því skyni að vernda betur þær gersemar sem undir voru.

Ein merkasta friðaða kirkja landsins er Dómkirkjan í Reykjavík, vígð 1796 og fyrst endurbyggð 1848. Altaristaflan var gerð af G. T. Wegeners, þekktum hirðmálara 1847 og mörg önnur verðmæti eru þar innandyra. Má helst nefna dýrgripinn, skírnarfontinn sem er höggvin út í marmara. Hann gerði Albert Thorvaldsen, þekktur sem Bertil Torvaldsen, á árum sínum í Róm 1827.

Mynd/Rúv

Skírnarfonturinn er líklega ein mestu verðmæti í kirkjum Íslands.

Mest er hættan á að kvikni í þegar viðgerðir og framkvæmdir eiga sér stað, segir Pétur. Ekki sé brunavörnum svo áfátt heldur góð plön um hvernig má koma mestum verðmætum undan eyðileggingu.

„Við höfum verið svolítið kærulaus með menningarverðmæti og þau mætti gjarnan fá meira vægi. Við gætum gert betur, við ættum að ráða við það því að aðrar þjóðir sitja kannski uppi með miklu stærri og flóknari viðfangsefni á þessu sviði,“ segir Pétur.

Mynd/Rúv

Altaristaflan er frá 1847.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir verðmætabjörgun alltaf gerða á fyrstu stigum slökkvistarfs og bendir á að sú hafi verið raunin þegar eldsvorði varð í Höfða.

Eigandi byggingar þurfi þó sjálfur að skrásetja verðmætin og staðsetningu þeirra. Það á þá við Þjóðkirkjuna í þessu tilfelli sem ætti að sjá til þess að gersemar merkustu kirkjanna séu tryggðar eftir fremst megni.

Heimild: Ruv.is