Eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja vöktu athygli á bágri stöðu sinni með ákalli til ráðherra og þingmanna Suðurkjördæmis í síðustu viku.
Þar var óskað eftir uppkaupum hins opinbera á atvinnuhúsnæði sem ljóst væri að myndi ekki nýtast í bráð.
Afdráttarlaus svör frá ríkisvaldinu
mbl.is ræddi við Fannar Jónasson, bæjarstjóra í Grindavík, um hvernig þessi mál og önnur stæðu í bænum.
Fannar segir mikið hafa verið fundað með umræddum hóp undanfarna daga. Boðað hafi verið til fundar í Kvikunni með fyrirtækjaeigendum úr Grindavík. Hafi sá fundur verið vel sóttur og ýmsar gagnlega upplýsingar komið fram.
„Við höfum reynt af hálfu bæjarins að halda utan um þennan hóp. Töluvert hefur verið spurt um uppkaup á atvinnuhúsnæði, þá með svipuðum hætti og gert hefur verið með íbúðarhúsnæði. Það hafa verið alveg afdráttarlaus svör frá ríkisvaldinu að ekki verði keypt upp atvinnuhúsnæði í bænum. Afgreiðslan er skýr, þetta verður ekki gert í þessum hamförum frekar en öðrum náttúruhamförum af ýmsum toga, þar sem það hefur ekki verið gert.“
Og Fannar bætir við:
„Öðru gildir um atvinnuhúsnæði sem orðið hefur fyrir skemmdum vegna jarðskjálfta eða jafnvel hraunflæðis, þá myndi náttúruhamfaratrygging bæta þann skaða.“
Staða fyrirtækjanna ólík
Fannar er þá spurður hvort það blasi ekki þá við sá eini kostur fyrir mörgum fyrirtækjum að fara í þrot.
„Aðstæður fyrirtækja eru svo mismunandi. Sum þeirra geta hafið starfsemi annars staðar og jafnframt haldið viðskiptasamböndum sínum. Svo eru önnur fyrirtæki sem geta verið hvergi annars staðar en í Grindavík.
Vonin er náttúrulega sú að þegar Grindvíkingar geta snúið til baka, þá sé hægt að hefja starfsemi að nýju í því húsnæði sem hefur verið yfirgefið. Viðhaldi þarf að sinna á því húsnæði sem skilið er eftir. Þannig að þetta er snúin staða hvernig sem á hana er litið.“
Ekki skólahald í Grindavík í haust
Fannar er þá spurður út í þá gagnrýni sem komið hefur fram á hversu hægt gangi í uppkaupum íbúðahúsnæðis á vegum fasteignafélagsins Þórkötlu og hvort sú gagnrýni hafi ratað á hans borð.
Hann segir fasteignafélagið hafa mögulega gefið óraunhæfar hugmyndir um hversu hratt myndi ganga í uppkaupum. Verkefnið hafi reynst flóknara en svo. Hann segist þó hafa heyrt að búið sé að hleypa nýju kappi í málið.
„Ég hef heyrt að margir séu að fá tilkynningar um að nú sé hægt að ganga frá samningum og stuttur tími hafi liðið frá því þar til fólk fái útborgað.“
Fannar er þá spurður um hvaða lausnir hafa náðst í skólamálum bæjarins fyrir næsta haust.
„Bæjaryfirvöld hafa gefið það út að ekki verða reknir safnskólar fyrir grindvísk börn annars staðar. Sömuleiðis er það ljóst að það verður ekki skólahald í Grindavík næsta haust.“
Staðan er eilítið önnur með leikskólabörn. Þá þarf að horfa til einhvers konar safnskóla og verið er að vinna að útfærslu þess. Það gæti verið á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, eða jafnvel á báðum stöðum.“
Samningar við sveitarfélög um land allt
Hann segir tilfærslu barna í aðra skóla ganga sjálfkrafa fyrir sig ef foreldrar þeirra skipta um lögheimili í annað sveitarfélag.
Um önnur börn gilda samningar milli Grindavíkurbæjar og viðkomandi sveitarfélags um þann kostnað sem af því hlýst.
Gerðir hafa verið um 30 slíkir samningar við sveitarfélög um land allt.
Yfirgefið húsnæði ekki sýningargripir
Að síðustu er Fannar spurður út í framhaldið og sumarið, hvernig líst bæjarstjóranum á það að ferðamönnum verði hleypt inn í bæinn?
„Það er snúin staða, því í bænum geta víða leynst hættur, einkum á opnum svæðum. Það er búið að jarðvegsskanna allt gatnakerfið. Ég held að íbúum hugnist það ekkert sérstaklega vel að ókunnugir séu þarna á ferð eftirlitslausir og að húsnæði þess séu orðnir hálfgerðir sýningargripir.“
Fannar segir þó ýmsar hugmyndir í farvatninu, meðal annars um skipulagðar ferðir inn í bæinn, þar sem fólk myndi njóta veitinga frá rekstraraðilum í bænum, fá að fara á tiltekna staði með leiðsögn og sé svo keyrt aftur út úr bænum.
Hann segir að ákveðið mynstur sé að greinast milli eldsumbrota þar sem eitthvað slíkt gæti verið mögulegt, en bætir við að lokum:
„Á endanum er það svo ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum að ákveða rýmingar og aðgengi að bænum eftir atvikum. Þannig að það eru hvorki bæjaryfirvöld eða íbúar sem hafa úrslitavald í því máli.“
Heimild: Mbl.is