Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Nýi leikskólinn í Asparlaut verður tilbúinn fyrir jól

Nýi leikskólinn í Asparlaut verður tilbúinn fyrir jól

112
0
Mynd: VF/pket

Nýr leikskóli verður byggður í stað Garðasels. Gamli barnaskólinn verður lítill leikskóli. Nýr leikskóli fyrir 90 börn í Dalshverfi opnar síðla sumars.

<>

Reykjanesbær og Tindhagur undirrituðu þarsíðasta föstudag samning um fullnaðarfrágang leikskólans Asparlautar í Hlíðarhverfi. Leikskólinn, sem verður sex deilda, mun þjóna 126 börnum frá átján mánaða aldri og starfsmenn verða þrjátíu og fimm.

Alls bárust fjögur tilboð í verkið. Eitt var dæmt ógilt en af hinum þremur reyndist verktakafyrirtækið Tindhagar með hagstæðasta tilboðið. Áætluð verklok eru 15. desember nk.

Vegna rakavandamála í leikskólanum Garðaseli hefur verið ákveðið að starfsemi hans með um 90 börn flytji í Asparlaut um áramót og nýr leikskóli verði byggður á lóð Garðasels. Því munu 30 ný leikskólapláss bætast við með tilkomu Asparlautar.

„Okkur líst mjög vel á nýja leikskólann Asparlaut. Við erum búnar að liggja yfir teikningum og erum mjög sáttar og hlökkum til að byrja í lok árs,“ sagði Ingibjörg Guðjónsdóttir, leikskólastjóri Garðasels, sem skoðaði bygginguna við undirritun samnings við verktakann.

Frá undirritun samnings við Tindhaga sem munu klára nýja leikskólann Asparlaut í Hlíðahverfi í Reykjanesbæ. Mynd: VF/pket

Auk þrjátíu nýrra leikskólaplássa í Asparlaut opnar leikskólinn Drekadalur í Dalshverfi III síðla sumars. Bæjarstjóri greindi frá því við undirritunina í Asparlaut að samkomulag hefði tekist við verktaka vegna myglu sem kom upp í nýrri byggingu Drekadals.

Áform eru um að opna hann í lok sumars. Drekadalur er 1.200 fermetrar að flatarmáli og er byggður úr timbureiningum frá Eistlandi. Við undirritun við verktakann fyrir um ári síðan kom fram að byggingin væri fyrsta Svansvottaða einingahúsið á Ísland.

Þá verða til 20-25 leikskólapláss í húsnæði gamla barnaskólans við Skólaveg 1 en mygla kom upp í þessu fyrsta steinsteypta húsi í Keflavík ekki alls fyrir löngu og hefur staðið autt í nokkurn tíma. Til stendur að taka húsið í gegn að innan og opna þar leikskóla síðla sumars.

Heimild: Vf.is