Home Fréttir Í fréttum Fátt um svör hjá fasteignafélaginu Þórkötlu

Fátt um svör hjá fasteignafélaginu Þórkötlu

39
0
Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Ekkert hefur verið ákveðið um leiguverð, umgengnisrétt né endurkaupsverð á húseignum í Grindavík sem fasteignafélagið Þórkatla festir kaup á. Bæjarstjórn Grindavíkur hitti forsvarsfólk fasteignafélagsins fyrir helgi.

<>

Ekki hefur verið ákveðið leiguverð né hvernig umgengisrétti verður háttað um hús í Grindavík sem fasteignafélagið Þórkatla festir kaup á. Þetta kemur fram í frétt á vef Grindavíkurbæjar.

Þar segir að bæjarstjórn Grindavíkur hafi fundað með forsvarsfólki fasteignafélagsins Þórkötlu fyrir helgi, um hvernig uppkaupunum verður háttað. Haft er eftir Ásrúnu Helgu Kristinsdóttur, forseta bæjarstjórnar Grindavíkur, að upplýsingaflæði um gang mála hefði mátt vera betra og að fasteignafélagið ætli að koma sterkara þar inn.

Þar sem uppkaupin hafa verið í forgangi hjá Fasteignafélaginu Þórkötlu hefur hvorki verið ákveðið leiguverð, umgengnisréttur né endurkaupsverð. Þá hefur ekki verið rætt hvort tilefni sé til að lengja frestinn sem íbúar hafa til að ákveða um sölu fasteigna, en hann er til áramóta.

Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík var gestur í Silfrinu í gærkvöldi. Þar sagðist hann ekki vera sérstaklega sáttur við það hvernig gengið hafi með Þórkötlu.

„Nei, ég get ekkert verið sáttur við það og ég held að þeir sem að Þórkötlu standa séu það alls ekki heldur. En ég veit líka að bæði stjórnin og framkvæmdastjórinn hafa verið að reyna sitt allra besta til þess að bæta úr þessum málum og þessum hnökrum sem hafa verið á afgreiðslunum.“

Heimild: Ruv.is