Home Fréttir Í fréttum „Allir sem voru á þessum markaði spáðu því að þetta yrði svona“

„Allir sem voru á þessum markaði spáðu því að þetta yrði svona“

99
0
Gylfi Gíslason framkvæmdastjóri Jáverks. VÍSIR/ARNAR

Framkvæmdastjóri Jáverks segir að afleiðingar aðgerðarleysis stjórnvalda í húsnæðismálum séu að koma fram núna. Dýrt fjármagn og skortur á lóðaframboði hægi á uppbyggingu.

<>

Byggja þarf helmingi meira en nú er gert til að mæta húsnæðisþörf og búist er við miklum verðhækkunum á næstunni vegna þessa.

Húsnæðis-og mannvirkjastofnun hefur um nokkurra missera skeið vakið athygli á því að of lítið sé verið að byggja hér á landi miðað við íbúafjölgun.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Auk þess var rætt við Gylfa Gíslason framkvæmdastjóra verktakafyrirtækisins Jáverks. Gylfi segir ástandið hafa verið fyrirséð.

„Það þarf lóðir til að byggja hús, fjármagnið hefur verið of dýrt í ljósi stýrivaxtanna.

Síðan var ákveðið fyrir rúmu ári fyrirvaralaust að auka skattheimtu, með lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts á nýbyggingar. Allt hefur þetta haft áhrif. Til lengri tíma þurfum við bara stóraukið lóðaframboð.“

Spurður út í aðgerðir stjórnvalda á síðustu misserum vegna ástandsins segir Gylfi lítið hafa gerst.

„Stóraukið lóðaframboð hefur enn ekki komið fram. Stýrivextir eru í hæstu hæðum. Allir sem voru á þessum markaði spáðu því að þetta yrði svona. Þetta er kannski að raungerast núna.“

Erum við þá að grípa of seint til aðgerða?

„Já, já. Eða þá að við viljum bara hafa þetta svona. Það er alveg hugsanlegt líka. Menn vildu draga úr þenslu í hagkerfinu.

Það var gagnrýnt að það væri bæði á framboðs- og eftirspurnarhliðinni. Það var gert og ég held að þessar afleiðingar séu að einhverju leyti að koma í ljós, ef þessar spár reynast réttar,“ sagði Gylfi að lokum.

Heimild: Visir.is