
Þrátt fyrir áhuga landeigenda að jörðinni Egilsstöðum 2, til suðurs af þéttbýlinu á Egilsstöðum, að selja þá jörð ber svo mikið í milli á milli þeirra og sveitarfélagsins Múlaþings með verðhugmyndir að viðræðum var hætt áður en þær komust á formlegt stig.
Þetta staðfestir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings við Austurfrétt.
Unnið hefur verið að því síðan síðasta sumar að kaupa umrætt land eftir ábendingar þar að lútandi frá umhverfis- og byggðaráði sveitarfélagsins. Sár skortur er á atvinnulóðum á Egilsstöðum og var jörð Egilsstaða 2 talin einn vænsti kosturinn til að ráða bót á því að mati ráðsins.
Féllst sveitarstjórn á ábendingar umhverfis- og byggðaráðs en þó með þeim fyrirvara að óháður sérfræðingur yrði fenginn til að vinna verðmat á umræddu landi eftir að landeigendur höfðu opinberað sínar hugmyndir um söluverðmætið.
Álit sérfræðings var svo fengið og í kjölfarið hófust óformlegar viðræður við eigendur landsins. Þær viðræður stóðu stutt enda munaði töluverðu á verðmati sérfræðingsins og þeirri upphæð sem landeigendur sáu fyrir sér.
Heimild: Austurfrett.is