Home Fréttir Í fréttum Nýr Axarvegur á að vera ríkisframkvæmd að fullu að mati Múlaþings

Nýr Axarvegur á að vera ríkisframkvæmd að fullu að mati Múlaþings

46
0
Mynd: Austurfrett.is

Gerð heilsársvegar yfir Öxi á alfarið að vera ríkisframkvæmd að mati heimastjórnar Djúpavogs og undir það tók sveitarstjórn Múlaþings á fundi í gær.

<>

Bókaði heimastjórn Djúpavogs fyrr í vikunni þau skilaboð til sveitarstjórnar Múlaþings að óskað yrði formlega eftir að innviðaráðherra taki gerð heilsársvegar yfir Öxi af svokölluðum PPP-samvinnuverkefnislista. Sveitarstjórnin tók undir þetta sjónarmið og fól sveitarstjóra að koma á fundi með ráðherra vegna málsins.

Svandís Svavarsdóttir varð nýr innviðaráðherra landsins á þriðjudaginn var í stað Sigurðar Inga Jóhannssonar sem gengt hefur því embætti síðan 2021. Það kann því að taka nokkurn tíma fyrir nýjan ráðherra að setja sig inn í hlutina í nýja embættinu.

Hægagangur og frestun

Líkt og með önnur stór vegaframkvæmdaverkefni á Austurlandi hefur ríkinu lítt gengið að  halda áætlanir sínar varðandi Axarveg. Nú eru liðin fjórtán ár síðan framkvæmdir við heilsárveg yfir Öxi áttu upprunalega að hefjast en þeim áformum síendurtekið breytt og frestað.

Ráða átti bót á því árið 2020 þegar ákveðið var að nýr Axarvegur yrði samvinnuverkefni (PPP) þar sem ríkið leggur til helming kostnaðar en verktaki dekki hinn helminginn.

Einkaaðilinn sá myndi þá  hanna veginn og leggja auk þess að sjá um allt viðhald og mokstur um 30 ára skeið í tifelli Axarvegar og innheimta veggjöld allan þann tíma. Kostir PPP-verkefna sagðir vera meiri sveigjanleiki, hraðari ákvörðunartaka og þar af leiðandi styttri framkvæmdatími auk lægri útgjalda ríkisins.

Vegagerðin hefur reyndar gengið töluvert lengra til að flýta fyrir verkinu en fyrirhugað var upphaflega. Sú stofnun sem hefur lokið við hönnun vegarins auk þess að ná samningum við landeigendur svo kostnaður og tími framkvæmdaraðilans minnkar til muna. Viðræður við áhugasama verktaka voru hafnar vorið 2022 en um það leyti breyttist stefnumið fjárhagsáætlunar stjórnvalda og Axarvegur datt úr skaftinu.

Stemmir við markmið samgönguáætlunar

Enn hefur ekkert þokast áfram og þess vegna vill heimastjórn Djúpavogs að ríkið taki yfir verkefnið á nýjan leik og fer þess á leit að framkvæmdir hefjist strax á næsta ári.

Heimastjórnin ítrekar í bókun sinni að að Axarvegur sé sá vegkafli landsins sem falli best að markmiðum samgönguáætlunar ríkisvaldsins um aukið öryggi, styttingu vegalengda og tengingu byggða. Eðlilegt sé því að fjármunum verði forgangsraðað í því ljósi.

Heimild: Austurfrett.is