Home Fréttir Í fréttum Skipulagsfræðingur telur Hvassahraun úr sögunni og vill varaflugvöll í Borgarfirði

Skipulagsfræðingur telur Hvassahraun úr sögunni og vill varaflugvöll í Borgarfirði

93
0
Trausti Valsson, skipulagsfræðingur og prófessor emeritus í Háskóla Íslands. RÚV – Bragi Valgeirsson

Skipulagsfræðingur sem hefur kortlagt náttúruvá á Íslandi telur rétt að nýr varaflugvöllur verði í Borgarfirði. Þar sé mun minni hætta á hamförum en á suðvesturhorni landsins. Áform um varaflugvöll í Hvassahrauni eru enn til skoðunar.

<>

Skipulagsfræðingur vill að nýr varaflugvöllur verði norðan Hvalfjarðar eða í Borgarfirði, en ekki í Hvassahrauni. Hann segir rétt að byggð sé skipulögð með náttúruvá í huga.

Hvassahraunsflugvöllur lengi í pípunum

Lengi hefur verið tekist á um flugvöllinn í Vatnsmýri í Reykjavík. Sumir vilja hann burt, en aðrir eru harðir á því að hann þurfi að vera, ekki síst með öryggissjónarmið og sjúkraflug í huga.

Árið 2001 var haldin atkvæðagreiðsla í Reykjavík um framtíð flugvallarins. Mjög naumur meirihluti atkvæða var fyrir því að hann viki. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru ekki bindandi fyrir borgaryfirvöld, þar sem þátttakan var ekki næg.

Árið 2019 var niðurstaða starfshóps sú að Hvassahraun væri einn vænlegasti kosturinn fyrir varaflugvöll. Síðan hefur margt breyst.

„Þessi eldvirkni er hafin á Reykjanesi eftir 780 ára hvíld og það breytir rosalega mörgu í sambandi við flest sem snertir atvinnustarfsemi, samgöngur, virkjanamál, á Reykjanesinu og líka á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Trausti Valsson, skipulagsfræðingur.

„Ingólfur klikkaði á þessu“

Trausti bendir á að öll helsta þjónusta og mesti fólksfjöldinn sé á suðvesturhorni landsins, sem er langt frá því að vera öruggt svæði. „80% þjóðarinnar búa á þessum litla bletti, sem er 19% landsins, og við horfum fram á 200 ára virkni, alveg frá Reykjanestá og upp í Hengil, eða það gæti gerst.“

Reykjavík sé ekki endilega hentugasti staðurinn fyrir höfuðborgina. „Ingólfur klikkaði á þessu,“ segir Trausti.

Trausti hefur lengi talað fyrir því að byggð sé skipulögð með náttúruvá í huga.

„Ég skrifaði upp lista yfir tíu helstu náttúruvár á Íslandi. Það er sem sagt hraunflóðahætta, gjóskufallshætta, flóð undan jöklum, jarðskjálftar og svo fimm veðurfárshættur.“

Kortið sýnir samprentun 5 af 12 vákortum: Hraunflóð (ljósrautt), gjóskufall (ljósgrátt), jarðskjálftar (gulbrúnt), flóð undan jöklum (grátt) og snjóflóð (blátt). Kortið sýnir einnig, með hringjum, stór svæði á Íslandi þar sem vá er lítil.
– Trausti Valsson

Þá sést vel hvar náttúruvá er mikil og hægt forðast þau svæði við uppbyggingu. Þetta sýnir líka hvar hættan er lítil: Norðan Hvalfjarðar og í Borgarfirði, Húnavatnssýslum, Skagafirði, Eyjafirði, Fljótsdalshéraði og Hornafirði/Lóni. Samkvæmt þessu gæti svæðið norðan Hvalfjarðar hentað fyrir varaflugvöll, sér í lagi með tilkomu Sundabrautar.

„Það væri ekki nema 40 km vegalengd út á völl og þá væri auðveldlega hægt að tengja í sama flugvellinum utanlands- og innanlandsflug,“ segir Trausti.

Ef flugskilyrði eru ekki nógu góð þar, væri hægt að finna stað í Borgarfirði. „Því að Borgarfjörðurinn er mjög öruggt svæði.“

Von er á skýrslu samgönguráðherra um flugvöllinn. Hún átti reyndar að vera tilbúin fyrir árslok 2022. Meðal þess sem hefur verið rannsakað í tengslum við hugsanlega flugvallargerð í Hvassahrauni er veðurfar og náttúruvá. Ekki liggur fyrir hvort önnur ákjósanleg flugstæði eru til skoðunar.

Heimild: Ruv.is