Home Fréttir Í fréttum Skóflustunga að nýrri fjölnota farþegamiðstöð Faxaflóahafna

Skóflustunga að nýrri fjölnota farþegamiðstöð Faxaflóahafna

104
0
Mynd: Faxaflóahafnir

Síðastliðinn föstudag tóku Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Gunnar Tryggvason hafnarstjóri og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna skóflustungu að nýrri farþegamiðstöð við Skarfabakka í Sundahöfn.

<>

Farþegamiðstöðin er fjölnota, verður 5700 fermetrar eða nokkru minni en fótboltavöllur (7140 fermetrar). Fjölnotarými byggingarinnar verður einnig nothæft af ferðaþjónustu fyrir ráðstefnur, stærri fundi og viðburði og auðveldar þannig höfuðborginni að laða að ráðstefnugesti utan háannatíma.

Tilgangur farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna er fyrst og fremst sá að auka beinar tekjur af komum skemmtiferðaskipa og um leið af hverjum farþega. Farþegaskipti skemmtiferðaskipa skila hærri tekjum í gegnum hærra þjónustustig og lengri viðlegu.

Samkvæmt nýlegri rannsókn Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála (RMF) sem framkvæmd var síðasta sumar var eyðsla skiptifarþega rúmlega þrisvar sinnum hærri í landi, að ótöldu flugi til eða frá landinu.

Rannsókn RMF leiddi enn fremur í ljós að almennir farþegar skemmtiferðaskipa eyddu að meðaltali tæplega 28 þúsund á höfuðborgarsvæðinu en skiptifarþegar sem farþegamiðstöðin er fyrst og fremst byggð fyrir eyddu tæplega 98 þúsund með gistingu á hótelum, mat, drykk, minjagripum, bílaleigu og annarri neyslu í landi. Þó er flugfargjald til eða frá landinu ekki í þeim tölum.

Fjölnota farþegamiðstöð staðsett á Skarfabakka í Sundahöfn mun vera notuð fyrir innritun farþega, öryggisskimun, landamæraeftirlit, afhendingu farangurs og alla þá þætti sem nauðsynlegir eru við upphaf eða endi á alþjóðlegu ferðalagi.

„Farþegamiðstöð er gríðarleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna í borginni. Nútímaleg og ný farþegamiðstöð í höfuðborginni sem mun nýtast farþegaskiptum á sumrin en einnig ferðaþjónustu og viðburðahaldi í borginni á veturna.

Mynd: Faxaflóahafnir

Tækifæri sem þetta mun enn frekar festa borgina í sessi sem alþjóðlega borg. Fram til þessa hafa bara verið alþjóðlegar farþegamiðstöðvar í Keflavík, á Akureyri og á Egilsstöðum,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stjórnar Faxaflóahafna.

Utan háannatíma skemmtiferðaskipa, að vetri til, verður fjölnota byggingin aðgengileg fyrir ráðstefnur, fundi og stærri viðburði og nýtist hún þannig ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu allt árið um kring. Skipulag byggingarinnar er með þeim hætti að stuðst er við stór rými sem geta tekið milli 900 og 1000 manns í sæti. Því er um mikilvæga viðbót að ræða fyrir ráðstefnur og viðburði á höfuðborgarsvæðinu.

„Þessi fjárfesting er liður í þeirri vegferð Faxaflóahafna að auka tekjur félagsins og samfélagsins alls af þeim ferðamönnum sem hingað koma. Markmiðið er ekki að vaxa í magni heldur fremur að hver og einn ferðamaður skilji meira eftir sig í samfélaginu.

Fyrir okkur eru farþegaskipti lykilforsenda til að ná því markmiði en þessi glæsilega bygging mun hýsa þá starfsemi til framtíðar. Um það leiti sem farþegamiðstöðin verður tekin í notkun er ætlunin að taka í gagnið landtengingar fyrir skemmtiferðaskip sem að Skarfabakka koma, sambærilegum þeim sem þegar eru komnar í gömlu höfnina.

En sú fjárfesting styður við hitt meginmarkmið okkar gagnavart þessum geira, að draga hratt og örugglega úr loftmengun sem frá honum kemur,“ segir Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Vinningstillaga farþegamiðstöðvarinnar var tilkynnt á vormánuðum 2023 og var það teymi ÍAV, verkfræðistofunnar VSÓ og BROKKR Studio arkitekta sem varð hlutskarpast. Hugmyndafræðin byggir á sveigjanleika þar sem tryggt er að flæði farþega og farangurs verði sem best.

Utan hins sveigjanlega rýmis farþegamiðstöðvarinnar gárast byggingin út og myndar formfagran glerhjúp sem gefur henni einkennandi útlit. Inngangurinn tekur vel á móti farþegum með fallegri efniskennd og skírskotun í íslenska náttúru.

Vel hannað útisvæði endurspeglar formin í byggingunni með sannfærandi íveru- og gróðursvæðum með íslenskum gróðri sem verður kærkomin viðbót á Skarfabakka.

Heimild: Faxafloahafnir.is