Home Fréttir Í fréttum Leggja til að kaupa einingahús frá Norðurlöndunum fyrir Grindvíkinga

Leggja til að kaupa einingahús frá Norðurlöndunum fyrir Grindvíkinga

127
0
Mynd: Þór Ægisson

Formaður bæjarstjórnar í Grindavík segir mikilvægt að skoða af festu að panta einingahús frá Norðurlöndunum til að slá á húsnæðisvanda Grindvíkinga. Verkefnastýra húsnæðisteymis segir stjórnvöld vera of rög við að stíga inn á húsnæðismarkaðinn.

<>

Enn eru um það bil 400 fjölskyldur úr Grindavík án varanlegs húsnæðis. Verst gengur að finna samastað fyrir einstaklinga og hjón.

„Við höfum lagt til að það séu keypt smáhýsi eða einingahús, við vitum að það stendur ekki á sveitarfélögum. Það eru fjölmargar lóðir tilbúnar og fjölmörg sveitarfélög sem vilja taka á móti Grindvíkingum, sums staðar eru innviðir klárir annars staðar er eitthvað í þá,“ segir Ellen Calmon, verkefnastýra húsnæðisteymis Grindavíkurbæjar.

„Við erum auðvitað í samtali við stjórnvöld um þetta og vonumst auðvitað til að vel verði tekið í málið,“ bætir hún við.

Sveitarfélagið er í samtali við sendiherra norrænu þjóðanna og áformar fund með fyrirtækjum á norðurlöndunum sem byggja einingahús eftir páska.

„Það er sem sagt ákveðin lægð á markaðnum bæði í Svíþjóð og Noregi og það er mikilvægt að við nýtum okkur það. Við bindum vonir við að þessi fundur skili árangri fyrir okkur,“ segir Ásrún Kristinsdóttir, formaður bæjarstjórnar í Grindavík.

Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Þetta yrði gert að fordæmi svokölluðu viðlagasjóðshúsanna sem voru keypt fyrir Vestmannaeyinga eftir gosið í Heimaey.

„Stjórnvöld hafa tekið alltof langan tíma til að taka ákvarðanir og hafa tekið allt of stutt skref. Þegar Vestmannaeyingar höfðu verið á vergangi í rúman mánuð voru keypt 200 hús, við erum að detta í hálft ár með Grindvíkinga,“ segir Ellen.

„Sænski sendiherrann talaði um að þetta gæti bara tekið einhverjar vikur þess vegna, þar sem við tölum um þessa brýnu húsnæðisþörf þá þurfum við að skoða þetta af mikilli festu,“ segir Ásrún.

Ellen segir að búið sé að útvega Grindvíkingum 260 íbúðir frá Bjargi, Bríeti og á leigutorgi sérstaklega fyrir fólk úr bænum. „Við höfum heyrt það í skilaboðum að stjórnvöld virðast ekki vilja stíga inn á þennan frjálsa húsnæðismarkað, þetta er húsnæðismarkaður sem er löngu sprunginn og útþaninn. Það er bara gríðarlega mikilvægt að tempra hann.“

Heimild: Ruv.is