Bæjarstjórn og félagasamtök í Grindavík fara fram á að stjórnvöld komi til móts við Grindvíkinga líkt og við fyrstu kaup fasteignar. Það hafi Seðlabanki Íslands þegar gert með rýmkun greiðslubyrðahlutfalls. Velsæld hafi ríkt í bænum fyrir hamfarir.
Farið er fram á að stjórnvöld komi til móts við Grindvíkinga með sama sama hætti og við fyrstu kaup fasteignar.
Stjórnvöld eru beðin um að styðja Grindvíkinga og fjárhag þeirra og velferð enn frekar, til að ná markmiðum um uppkaup húsnæðis. með aðgerðum á borð við helmingsafslátt af stimpilgjöldum við fasteignakaup, skattfrjálsri úttekt á uppsöfnuðum séreignasparnaði til útborgunar við fasteignakaup og aðgengi að hlutdeildarlánum þótt Grindvíkingar hafi átt fasteign áður.
Allt þetta bjóðist nú fasteignakaupendum við fyrstu kaup. Þetta kemur fram í samstöðuyfirlýsingu frá bæjarstjórn Grindavíkur, Félagi eldri borgara í Grindavík, Verkalýðsfélagi Grindavíkur og Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur.
Þar segir að staða flestra sé gríðarlega erfið við að koma sér fyrir á fasteignamarkaði. Áréttað er að Seðlabankinn hafi rýmkað greiðslubyrðahlutfall fyrir Grindvíkinga samsvarandi fyrstu kaupendum.
Fyrirsjáanlegt sé að Grindvíkingar tapi fjármunum vegna náttúruhamfaranna og útgjöld þeirra aukist. Fasteignaverðshækkun í þeim sveitarfélögum sem Grindvíkingar sæki í sé óhjákvæmileg þegar þeir streymi inn á þegar þaninn fasteignamarkað, lánakjör séu óhagstæð og verðbólga há.
Það leiði af sér háar afborganir fasteignalána. Grindavík hafi verið eftirsóknarverður staður að búa á, bæjarsjóður vel stæður og bæjarbúar búið við velsæld í bæjarfélagi sem bauð upp á niðurgreiðslur margvíslegrar þjónustu við barnafjölskyldur og húsnæðisverð var hagstætt.
Heimild: Ruv.is