Útboð þriðja áfanga Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði er í óvissu. Til stóð að bjóða verkið út í febrúar en núna fást óljós svör frá Vegagerðinni um hvort búið sé að fresta útboðinu og hve lengi því muni seinka.
Lokaáfanginn á leiðinni milli Flókalundar og Dynjanda er kaflinn milli Dynjandisvogar og sýslumarka á heiðinni. Samkvæmt svari sem fréttastofan fékk í janúar frá Vegagerðinni var stefnt á útboð þessa áfanga núna í febrúar. Miðað var við að framkvæmdir gætu hafist í vor og að verklok gætu orðið sumarið 2026.
Þegar fréttastofan spurðist fyrir um það hversvegna ekki væri búið að auglýsa útboðið, hvort búið væri að fresta útboðinu og þá hve lengi fékkst eftirfarandi svar frá upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar:
„Þetta er svo sem allt í vinnslu en útboðið verður ekki alveg strax,“ svaraði G. Pétur Matthíasson.
-Hvenær má búast við að þessi áfangi verði boðinn út? Hver er ástæðan fyrir frestun?
„Get ekki sagt á þessari stundu hvenær verður boðið út, þau mál eru enn til skoðunar hér innanhúss og ekki komin niðurstaða,“ svaraði upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Í yfirliti sem birt var þann 1. mars á heimasíðu Vegagerðarinnar um stöðu framkvæmda á Vestfjarðavegi segir að vonast sé til að þriðji og síðasti áfanginn á Dynjandisheiði verði boðinn út fyrir lok árs.
Vinnu Suðurverks við annan áfanga vegarins yfir Dynjandisheiði miðar vel og segir Vegagerðin stefnt að því að verkinu verði lokið um miðjan júlí í sumar. Fari svo að útboð næsta áfanga frestist að ráði þýðir það að samfella í verkinu rofnar.
Á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit hóf Borgarverk í lok janúar vinnu við nýjan vegarkafla við Skálanes og niður að sjó við Melanes. Í framhaldi verður farið í sjávarfyllingar í Gufufirði og svo byggingu bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. Verklok þessa áfanga eru áætluð í lok september 2025.
Þetta er fyrsti áfangi í þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Í yfirlitsfrétt sinni segist Vegagerðin vonast til að hægt verði að bjóða út smíði brúanna síðla þetta ár.
Stöð 2 kynnti sér framkvæmdir Suðurverks á Dynjandisheiði síðastliðið haust og sýndi þá þessa frétt:
Heimild: Visir.is