Vegaframkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum eru komnar á góðan rekspöl. Borgarverk vinnur að fyllingum í Djúpafirði og Gufufirði sem er fyrsta skref í brúargerð yfir firðina.
Á Dynjandisheiði er unnið við annan áfanga í uppbyggingu vegarins og vonast til að þriðji og síðasti áfanginn verði boðinn út fyrir lok árs.
Unnið að fyllingum í Gufudalssveit
Nokkur tímamót urðu í framkvæmdum Vestfjarðavegar um Gufudalssveit í haust. Brúin yfir Þorskafjörð var opnuð og stytti þar með leiðina um tæpa tíu kílómetra. Þá voru opnaðir fyrir umferð vegirnir um Teigsskóg og inn Djúpafjörð.
Sums staðar á eftir að leggja seinna klæðingalagið á veginn en það verður klárað í sumar.
Nú sleppa vegfarendur við að aka yfir Hjallaháls en þurfa áfram að aka um Ódrjúgsháls, eða þar til framkvæmdum lýkur við þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar.
Í lok nóvember samdi Vegagerðin við Borgarverk vegna verksins Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Hallsteinsnes – Skálanes, fyllingar.
Verkið snýst um nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 3,6 km kafla. Innifalið í verkinu er bygging um 119 m langrar bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð sem verktakar munu nota meðan á framkvæmdum stendur. Borgarverk er vel kunnugt staðháttum enda sá verktakinn um veglagningu í Teigsskógi.
Framkvæmdir hófust í lok janúar og er verið að vinna að vegagerð frá Vestfjarðavegi við Skálanes og niður að sjó við Melanes.
Í framhaldi verður farið í sjávarfyllingar í Gufufirði og svo byggingu bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. Verklok þessa áfanga eru áætluð í lok september 2025. Framkvæmdin er fyrsti áfangi í þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Vonast er til að hægt verði að bjóða út byggingu brúanna síðla þetta ár.
Góð framvinda á Dynjandisheiði
Unnið er að öðrum áfanga Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði. Verkið snýst um nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 12,6 km kafla. Framkvæmdin nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæstu hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk.
Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inn í verkinu er einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð tveggja áningarstaða. Verktaki er Suðurverk en skrifað var undir verksamning í ágúst 2022.
Verkið er hluti af stærri framkvæmd. Í fyrsta áfanga voru tvö verkefni, annars vegar nýr kafli um Dynjandisvog sem var opnaður í október 2021 og hins vegar nýr kafli um Pennusneiðing, Bíldudalsgatnamót og að Norðdalsá sem kláraður var sumarið 2022. Verktaki í fyrsta áfanga var ÍAV.
Framkvæmdir við annan áfanga hófust í október 2022 og mest unnið við fyllingar og sprengingar. Í byrjun árs 2023 og fram í mars var erfið tíð og alloft sem starfsfólk komst ekki á verkstað sökum ófærðar.
Þurfti verktaki til dæmis að moka töluverðan snjó alveg fram í maí til að geta keyrt út fyllingar. Veður hefur þó ekki haft teljandi áhrif á gang verksins.
Starfsmenn voru tólf í upphafi verks en fjölgaði fljótt. Í júní 2023 var farið að vinna á næturvöktum og voru þá rúmlega tuttugu manns að störfum en fjölgaði í um 30 yfir sumarið og í rúmlega 40 um haustið.
Nú í febrúar eru 30 manns að störfum. Tækjakostur er talsverður en um þessar mundir eru á svæðinu meðal annars 6 trukkar, 6 gröfur, 2 borvagnar og 2 ýtur.
Einhverjar breytingar hafa orðið á verkinu á framkvæmdatíma. Til dæmis þurfti að endurskoða skeringar á ákveðnum stöðum vegna hugsanlegrar snjósöfnunar. Við það jókst fyllingarmagn um rúma 25 þúsund rúmmetra.
Tveir kaflar í öðrum áfanga hafa þegar verið opnaðir fyrir umferð. Í október 2023 var vegur frá Norðdalsá að Vatnahvilft opnaður almennri umferð en þá var búið að leggja klæðingu og setja upp víravegrið.
Í desember var opnað fyrir umferð um veginn undir Botnshesti. Janúar 2024 var mjög snjóléttur og tókst að ganga frá fyllingu og styrktarlagi á um 1,5 km kafla. Þrátt fyrir að febrúar hafi verið erfiður og ekki verið fært upp á Dynjandisheiði þónokkra daga hefur verið hægt að vinna við fyllingu sem nú er komin að námu í Trölladal.
Sprengingum undir háspennulínu við Einhamar er lokið og heppnuðust mjög vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Steypustöðin, undirverktaki Suðurverks, hefur lokið sínu verki á svæðinu sem snerist um mölun á burðarlagi og klæðingarefni en Borgarverk sá um að leggja klæðingu.
Stefnt er að því að verkinu við annan áfanga Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði verði lokið um miðjan júlí 2024.
Heimild: Vegagerðin