Home Fréttir Í fréttum Nýir varnargarðar reistir við Grindavík

Nýir varnargarðar reistir við Grindavík

115
0
Ágangur á byggðina í Þórkötlustaðanesi við Grindavík. Brim skellur á nesinu úr suðri og verið að reisa varnargarð til að verja byggðina hraunrennsli.

Þau draga ekkert af sér sem vinna við að reisa varnargarðana við Grindavík. Brátt verður garður, sem nýbyrjað er á, tilbúinn. Fella þarf möstur og girðingar til að koma öðrum varnargarði fyrir.

<>

Byrjað var á eystri varnargarðinum sem verja á byggðina í Þórkötlustaðanesi um helgina. Hann verður um þúsund metra langur og um þriggja til fjögurra metra hár. Hann nær nærri því upp að norður-varnargarðinum. Stutt er í að hann verði tilbúinn:

„Það fer nú bara ansi langt í þessari viku. Þetta er nú ekkert svo svakalega hár garður en við erum með öflug tæki að vinna þarna og það lofar bara góðu eins og það gengur núna,“ segir Arnar Smári Þorvarðarson hjá Verkís sem er í stjórnendateyminu við gerð varnargarðana.

Arnar Smári Þorvarðarson.
RÚV – Guðmundur Bergkvist

Þrír varnargarðar eru þegar tilbúnir eða því sem næst. Byrjað var á þeim 2. janúar. Þeir eru svo háir að þegar staðið er á hæð við fjallið Þorbjörn þaðan sem áður sást vel yfir Grindavík sést nú ekkert í byggðina.

Gerð síðasta hluta varnargarðs vestur af Grindavík. Nýir varnargarðar verða svo reistir í framhaldi af þessum.
RÚV – Guðmundur Bergkvist

Auk eystri garðsins verða tveir reistir í þessari atrennu vestan við bæinn. Gerð þeirra er aðeins flóknari en þess eystri því huga þarf að lögnum, gatnamótum, rífa niður girðingar og fleira. Meira að segja þarf að fella ein fjögur eða fimm möstur. Þau standa í lægð og í lægðir leitar fljótandi hraunkvikan.

Þið þurfið líka að lækka nesveg?

„Já, það er svona horft til þess að þar sem við erum að ýta upp landi vestan við Nesveginn nýtum það uppýtta efni í garðinn. Og svo þar sem við komum neðst sunnan við hverfið að þar hugsanlega þurfum við að lækka veginn því annars er hann hindrun í rennslisástt hraunsins niður til sjávar.“

Flest möstrin fá að standa eins og þau hæstu. Hlaðið verður upp keilum við stagfestur þeirra til varnar.

Brimskafl úti fyrir Þórkötlustaðanesi.
RÚV – Guðmundur Bergkvist

Hver einasti klukkutími sólarhringsins er nýttur í að reisa garðana. Þegar gýs getur planið breyst.

„Undanfarið höfum við náttúrulega þá lent í frekari verkefnum við að verja það sem að skemmst hefur.“

Þannig að ef einhverjir eru í kapphlaupi við tímann þá eruð það þið?

„Já, er ekki hægt að segja það.“

Heimild: Ruv.is