Byggiðn, félag byggingarmanna, er ekki meðal þeirra fagfélaga sem boðað hafa undirbúning verkfallsaðgerða.
Þetta áréttir Jón Bjarni Jónsson, formaður Byggiðnar, í samtali við mbl.is.
Í kjaraviðræðum með breiðfylkingunni
Fagfélögin samanstanda vissulega af RSÍ, MATVÍS, VM og Byggiðn. Jón segir Byggiðn hins vegar hafa ákveðið að ganga til kjaraviðræðna sem hluti af breiðfylkingu stéttarfélaga, í umboði Samiðnar, en ekki sem hluti af fagfélögunum.
Byggiðn er þannig ekki meðal þeirra fagfélaga iðn- og tæknifólks sem samþykkti á fjölmennum fundi á föstudag að stofna aðgerðarhóp til að undirbúa verkfallsaðgerðir.
Spurður hvers vegna Byggiðn hafi ákveðið að ganga til kjaraviðræðna sem hluti af Breiðfylkingunni, en ekki með hinum fagfélögunum, svarar Jón því til að upphaflega hafi það verið gert til að koma viðræðum af stað.
„Síðan hafa viðræður þróast þannig að þetta er að verða iðnaðarmönnum hagkvæmara,“ segir Jón sem áréttir að stóra markmiðið sé þó að ná niður vöxtum og verðbólgu.
„Við fórum í ákveðna vegferð og höfum haldið áfram á þeirri vegferð,“ segir Jón sem gefur ekki frekari upplýsingar um gang mála við samningaborð SA og breiðfylkingarinnar í ljósi fjölmiðlabanns samningsaðila.
Heimild: Mbl.is