Hópur verkamanna var kallaður frá störfum við Hverahlíðarlínu II til aðstoðar við gerð nýrrar hjáveitulagnar meðfram Njarðvíkuræð á dögunum. Rúmenar voru þar í miklum meirihluta.
„Þegar við vorum beðnir af HS Orku um að bætast í hóp annarra við að koma lögnunum á Reykjanesskaga saman þá ákváðum við í samráði við Orku náttúrunnar að senda allan okkar mannskap úr Hverahlíðaverkinu til Reykjanesskaga.
Eðli málsins samkvæmt er allur þessi hópur þaulvanur pípusuðu, með suðuvottanir til slíks og með vottaða suðuferla,” segir Rögnvaldur Einarsson, yfirmaður sölu- og verkefnastýringar hjá Héðni, spurður út í verkefnið.
Settu undir sig hausinn
Vinnan við hjáveitulögnina stóð yfir frá laugardegi til mánudags þar sem unnið var í kappi við tímann við erfiðar aðstæður við að sjóða saman lögn til að heitt vatn kæmist til Suðurnesja. „Það var bara sett undir sig hausinn og menn mættu með því hugarfari,” bætir Rögnvaldur við um mannskapinn.
Rúmenarnir hafa starfað við Hverahlíðarlínu hjá vélsmiðjunni Altak-Artic, sem er verktaki hjá Héðni, við stálsuðu 1000 mm röra í lögnina síðan í júní í fyrra. Verklok eru áætluð 15. júlí næstkomandi.
„Þetta eru alveg hörku naglar,” segir Rögnvaldur, spurður hvers konar starfskraftar þeir eru. Stærstur hluti þeirra kom hingað til lands sérstaklega til að vinna við Hverahlíðarlínu og fer síðan aftur af landi brott að verkinu loknu.
Hverahlíðarlína er 4.450 metra löng flutningsæð fyrir gufu frá Hverahlíð til Hellisheiðarvirkjunar. „Markmiðið er að nýta fyrirliggjandi borholur við Hverahlíð til að afla uppbótargufu og skiljuvatns til rafmagns- og hitaveituframleiðslu fyrir Hellisheiðarvirkjun. Jafnframt er gert ráð fyrir þeim möguleika til framtíðar að tengja borholur sem verða boraðar síðar,” segir í tilkynningu sem Héðinn sendi frá sér í fyrra.
Heimild: Mbl.is