Home Fréttir Í fréttum Sjö allt að 130 metra há veðurmælingamöstur rísa í Fljótsdal

Sjö allt að 130 metra há veðurmælingamöstur rísa í Fljótsdal

96
0
Mynd: Austurfrett.is

Það fór aldrei svo að langur skortur yrði á háum möstrum á Austurlandi eftir að Eiðamastrið var fellt á síðasta ári.

<>

Fyrirtækið Fjarðarorka hyggst setja upp ein sjö veðurmælingamöstur á nokkrum stöðum í Fljótsdal og Fljótsdalsheiði en hvert og eitt þeirra mun geta náð allt að 130 metra hæð.

Fyrirtækið lagði fram gögn sín til sveitarstjórnar fyrir nokkru og nú hefur grenndarkynning verið send út á vef sveitarfélagsins þar sem allir geta kynnt sér áformin nánar en Fjarðarorka hyggst reisa vindorkuver á svæðinu á næstu árum.

Til þess þarf að mæla veður og vinda á þeim stöðum sem til greina koma. Þannig verða þrjú slík möstur sett upp á Múla, tvö á Víðivallarhálsi og önnur tvö til viðbótar á Fljótsdalsheiði.

Að auki hyggst fyrirtækið setja upp nokkur svokölluð Lídartæki á rannsóknarsvæðunum sem eru ljósmælinga- og drægnitæki.

Stefnan er að reisa fyrstu sex möstrin strax snemma í sumar en hið síðasta snemma á næsta ári en þau munu svo standa í eitt ár meðan að mælingarnar fara fram en þau svo tekin niður aftur að fullu.

Fullyrt er af hálfu hönnuðanna að möstrin verði aðeins sjáanleg í sex til átta kílómetra fjarlægð í besta falli.

Heimild: Austurfrett.is