Home Fréttir Í fréttum Hjalti Einars­son, stofnandi VHE, er látinn

Hjalti Einars­son, stofnandi VHE, er látinn

90
0
Hjalti Einarsson vélvirki í skemmunni á jörðinni Bæ á Bæjarnesi við norðanverðan Breiðafjörð. BALDUR HRAFNKELL JÓNSSON

Hjalti Einarsson vélvirki er látinn, 85 ára að aldri. Hjalti er kunnastur fyrir að hafa byggt upp VHE, eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins.

<>

Þá varð hann fyrir þeirri lífsreynslu níu ára gamall á bænum Reyðará á Siglunesi að vera lykilvitni í rannsókn mannskæðasta flugslyss á Íslandi en hann er talinn vera sá síðasti sem sá á lofti flugvélina sem fórst í Héðinsfirði með 25 manns árið 1947.

Hjalti fæddist á Siglufirði þann 11. apríl árið 1938 en ólst upp á Reyðará. Hann lærði vélvirkjun og vélstjórn á Siglufirði og á Akureyri en flutti árið 1963 í Hafnarfjörð.

Árið 1971 stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni, Kristjönu G. Jóhannesdóttur, Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar í bílskúr við heimili þeirra í Hafnarfirði.

Þau fluttu síðar á Melabraut í Hafnarfirði þar sem þau héldu áfram að byggja upp fyrirtækið, með vélaverkstæðið á neðri hæðinni en íbúð fjölskyldunnar á efri hæðinni.

Fyrirtækið hlaut síðar nafnið VHE og óx upp í það að verða það stærsta á sínu sviði hérlendis.

Þegar Hjalti og Kristjana drógu sig úr daglegum rekstri tóku börnin þeirra þrjú við fyrirtækinu, Unnar Steinn, Hanna Rúna og Einar Þór, undir forystu elsta barnsins, Unnars, sem varð aðaleigandi.

Um tíma störfuðu hjá því um 550 manns, auk 150 til 200 undirverktaka, og var VHE stundum nefnt stærsta ósýnilega fyrirtæki Íslands.

„Það var stefna hjá mér að láta ekkert á þessu bera. Þá er maður ekkert að segja of mikið,“ sagði Hjalti í þættinum „Um land allt“, sem Stöð 2 gerði árið 2014 um uppbyggingu fjölskyldufyrirtækisins.

Þau Hjalti og Kristjana áttu það sammerkt að koma frá afskekktum sveitabæjum sem hlutu þau örlög að verða eyðijarðir. Kristjana er fædd og uppalin á Bæ á Bæjarnesi við norðanverðan Breiðafjörð en Hjalti kom frá Reyðará á Siglunesi.

Hjalti lýsti því í frétt Stöðvar 2 þegar hann sá flugvélina þennan örlagaríka dag, 29. maí árið 1947, fljúga mjög lágt yfir Siglunes og hverfa inn í þoku skömmu áður en hún rakst á Hestfjall í Héðinsfirði, aðeins tvo kílómetra frá Reyðará þar sem Hjalti bjó.

Hjalti lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 3. febrúar síðastliðinn. Hann lætur eftir sig eiginkonu, þrjú börn, ellefu barnabörn og fjögur barnabarnabörn.

Heimild: Visir.is