Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kveðst hafa beðið um að útboð Reykjavíkurborgar á uppbyggingu Fossvogsbrúarinnar verði skoðað innan ráðuneytisins.
„Þetta hljómar þannig að það sé talsverð bólga í verðum,“ segir Sigurður Ingi.
„Það er eitthvað sem ég hef beðið um að verði skoðað í ráðuneytinu. Hvar og hvernig svona hlutir gerist og hver taki þessar ákvarðanir, en þær eru ekki teknar í ráðuneytinu,“ segir hann að lokum.
Verðmiðinn hækkað talsvert
Kostnaður brúarinnar sem mun hljóta nafnið Alda, hefur siglt talsvert fram úr áætlunum en samkvæmt frumdrögum að fyrstu lotu borgarlínu var áætlaður kostnaður við brúna sjálfa 2,25 milljarðar.
Samkvæmt nýjustu áætlunum er verðmiðinn á brúnni 8,8 milljarðar króna en gera má ráð fyrir að kostnaðurinn sigli umtalsvert fram úr áætlunum og geti jafnvel numið 15 milljörðum kóna þegar upp verður staðið.
Endurskoðun sáttmálans vel á veg komin
Spurður um framvindumála í endurskoðun samgöngusáttmálans segir Sigurður Ingi vinnu hennar vel á veg komna.
„Mér skilst að sú vinna gangi vel. Hún er auðvitað umfangsmikil og þetta eru stór verkefni,“ segir Sigurður Ingi.
Jón Gunnarsson, alþingismaður vakti athygli á því í viðtali við Morgunblaðið fyrr í vikunni að endurskoðun sáttmálans hafi staðið yfir síðan s.l. sumar.
Enn bóli ekkert á niðurstöðu þrátt fyrir að hafa átt að taka örfáar vikur. Fossvogsbrúin er eitt þeirra samgönguverkefna sem sáttmálinn tekur til.
Heimild: Mbl.is