Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur samþykkt að úthluta AtNorth lóð fyrir stækkun gagnavers fyrirtækisins á Akureyri. Áformuð er meira en tvöföldun á gagnaverinu sem AtNorth opnaði í sumar. Orkuþörfin yrði allt að 14 megavött.
Gagnaver AtNorth á Akureyri var opnað 9. júní 2023. Það er í um 2.500 fermetra byggingu og við opnunina voru strax kynntir möguleikar á frekari stækkun.
Bæjarstjórn samþykkti umsókn um stækkun
3. nóvember sótti fulltrúi AtNorth um 7,882 fermetra lóð við Hlíðarvelli á Akureyri, austan núverandi lóðar fyrirtækisins. Þar hyggst AtNorth reisa þrjú hús til viðbótar við þau tvö sem þegar standa.
Umsóknin hefur verið í ferli hjá bænum og tekin fyrir í skipulagsráði, bæjarráði og bæjarstjórn. Á fundi sínum í gær samþykkti bæjarstjórn svo með 10 atkvæðum að úthluta AtNorth lóðinni Hlíðarvöllum 3, án auglýsingar. Bæjarfulltrúi Vinstri grænna sat hjá.
Orkuþörfin allt að 14 megavött
Samkvæmt upplýsingum frá AtNorth er áætlað að framkvæmdir við stækkun gagnaversins kosti um 12 milljarða króna. Orkuþörf núverandi gagnavers, í tveimur húsum, verður allt að 6 megavött þegar vinnsla verður komin á fullan skrið um mitt ár. Verði af byggingu þriggja húsa til viðbótar gæti orkunotkunin orðið allt að 14 megavött.
Heimild: Ruv.is