Breytingar á skipulagi Austurstrætis eru nú í undirbúningi hjá borginni. Gert er ráð fyrir að breyta kjarna Kvosarinnar í göngugötusvæði til frambúðar. Í áföngum verður einstaka götum breytt í vistgötur og síðar göngugötur. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við verkefnið verði um 500 milljónir.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur, kynnti á borgarstjórnarfundi í gær næstu skref í innleiðingu umferðarskipulags Kvosarinnar, sem samþykkt var árið 2020.
Skipulagið mun styrkja upplifun gangandi vegfarenda á svæðinu segir í kynningunni. Þar er Austurstræti sagt einn mikilvægasti gönguás Reykjavíkur ásamt Bankastræti og Laugavegi.
„Austurstræti tengir saman mörg af mikilvægustu borgarrýmum, byggingum og starfsemi miðbæjarins. Það er mikilvægt að þessi sögulegi borgarás veiti læsilega, þægilega og hagnýta upplifun gangandi vegfarenda sem auðlesið almenningsrými og nútímalegt borgargöngusvæði.“
Heildarkostnaður verkefnisins um 500 milljónir
Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins er um 500 milljónir yfir lengri tíma. Það er fyrir utan ófyrirséðan mögulegan kostnað, sagði Dóra Björt á borgarstjórnarfundinum í dag. Mat á kostnaði byggir á frumhönnun, verkhönnun og umsjón og eftirliti með verkhönnun.
Frumkostnaðarmat á frumhönnun er yfir 400 milljónir. Þá er kostnaður við verkhönnun og eftirlit talið vera 65 milljónir. Gert er ráð fyrir því að ófyrirséður kostnaður sé 25% þeim 65 milljónum yfir lengra tímabil.
Dóra Björt segir að á þessu ári sé gert ráð fyrir 200 milljónum í fjárfestingaáætlun fyrir allt þetta svæði.
Göngugötur vinsælar meðal Reykvíkinga
Tæplega þrír af hverjum fjórum (72%) íbúum Reykjavíkur er hlynntur göngugötum samkvæmt nýlegri könnun Maskínu. Í öllum hverfum í borginni eru langtum fleiri jákvæðir en neikvæðir gagnvart göngugötum. Yngri íbúar eru líklegri til að vera jákvæðari ásamt þeim sem búa nálægt göngugötum.
„Samsetning sveigjanlegra svæða hefur verið ákvörðuð í samráði við Reykjavíkurborg og hagsmunaaðila, stillt að þörfum fyrirtækjaeigenda í götunni. Sveigjanleg svæði og hönnun innan skýrs ramma rýmis- og efnisvals.“
Hollenska hönnunarstofan Karres en Brands auk hinnar íslensku Sp(r)int Studio hönnuðu nýja strætið, en þau hönnuðu einnig nýja Lækjartorg.
Kynning á umferðarskipulagi Kvosarinnar má sjá hér.
Heimild: Mbl.is