Home Fréttir Í fréttum Bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkir að taka þátt í byggingu nýs verknámshúss MÍ

Bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkir að taka þátt í byggingu nýs verknámshúss MÍ

51
0
Mynd: Isafjordur.is

Tillaga bæjarstjóra um að bæjarstjórn samþykki að taka þátt í verkefni um byggingu nýs verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði var samþykkt á 527. fundi bæjarstjórnar þann 1. febrúar.

<>

Drög að samningi milli sveitarfélaganna á Vestfjörðum og mennta- og barnamálaráðuneytisins um bygginguna voru lögð fram á fundinum en þar kemur fram að stofnkostnaður nýbyggingarinnar, þar með talinn undirbúningur og hönnun, skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% en sveitarfélögin á Vestfjörðum 40%.

Þar af er hlutur Ísafjarðarbæjar 20,946%. Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er á bilinu 476,8–715,3 milljónir króna samkvæmt forathugun Framkvæmdasýslu ríkisins miðað við verðlag í október 2023.

Stjórnun og ábyrgð á undirbúningi verkefnisins skal vera hjá ráðuneytinu og Vestfjarðarstofu. Samningur og frekari gögn um fjármögnun og hlut Ísafjarðarbæjar verður lagður fram til samþykkis á síðari stigum.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar bókaði á fundinum að hún fagni áformum um byggingu verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði.

Það er mikilvægur þáttur í að efla alla Vestfirði og gera ungu fólki kleift að sækja iðnmenntun stutt frá heimahögunum. Í ljósi þess að við sjáum fram á mikla uppbyggingu á svæðinu er þetta þýðingarmikið fyrir framtíð Vestfjarða.

Heimild: Isafjordur.is